Strandveiðifélagið Krókur : ráðherra segi sig frá málefnum smábáta

Strandveiðifélagið Krókur, félag smábátaeigenda í Barðastrandarsýslu krefst þess að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir sig frá málefnum smábáta.

Þetta kemur fram í umsögn félagsins um reglugerðardrög um grásleppuveiðar sem eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Hefndaraðgerð

Í umsögninni segir að ekki sé hægt „að eiga málefnanlegar umræður um þá íþyngjandi reglugerð sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson hefur nú lagt fram, þar sem hún er lögð fram sem hefniútspil ráðherra til að knýja fram stuðning við kvótasetningarfrumvarp hans.“

Þá segir að ráðherra kalli eftir auknu eftirliti vegna meðaflamælinga, en þær séu eins óvísindalegar og hugsast getur þar sem meðafli fyrstu róðra var uppreiknaður á alla vertíðina, og bent hefur verið á þessa fráleitu mæliaðferð af forsvarsmönnum LS.

Þá kemur fram í umsögninni að ráðherra hafi hafnað öllum hugmyndum um breytingar á núverandi kerfi sem eru til þess að mæta kröfum um minni meðafla á grásleppuveiðum með þeim rökum að þær myndu kalla á of mikið eftirlit „en þegar ráðherra leggst svo lágt að framkvæma áður gefnar hótanir um íþyngjandi reglugerð á grásleppuveiðar vegna þess að hann hafi verið gerður afturreka með kvótasetningu, þá er hægur leikur að gera töluvert af breytingum og alveg nóg til af mannskap í eftirlit“ segir í umsögn strandveiðifélagsins Króks.

Kvótasetningu hafnað

loks segir:

„LS hefur alltaf ályktað gegn kvótasetningu á grásleppu og gerir enn (meirihluti grásleppuleyfishafa og félagsmanna almennt), og njótum við stuðnings um það innan þingsins. Ráðherra er nú að framfylgja hótunum frá fundum með forsvarsmönnun LS um íþyngjandi reglugerð þar sem kvótasetningarfrumvarp sé fast innan þingflokka Framsóknar og VG, og fyrirséð að menn myndu hér frekar kalla eftir kvótasetningu en að fá yfir sig þessa reglugerð sem ráðherra getur sett á án aðkomu þingsins.“

Sett fram þessi krafa í niðurlagi umsagnarinnar:

Strandveiðifélagið Krókur fer fram á að Kristján Þór Júlíusson segi sig frá málefnum smábátasjómanna og að umrædd reglugerð verði dregin til baka.

DEILA