Strandir: Æfingabúðir og fyrsta skíðamót vetrarins

Skíðafélag Strandamanna hefur vetrarstarfið með krafi. Fyrir viku stóð félagið fyrir þriggja daga æfingabúðum á svæði félagsins í Selárdal. Rósmundur Númason sagði í samtali við Bæjarins besta að búðirnar hafi verið vel sóttar, þátttakendur hefði haft gaman af og allir skemmt sér vel. Slegið hefði verið upp móti í lokin. Næstu æfingabúðir verða 21. – 23.  febrúar í Selárdal.

Fyrsta mót vetrarins 2019-20 var haldið í Selárdal þrátt fyrir hvassa suðvestanátt  en Selárdalur er skjólgóður í sv-átt, aðeins voru dálitlar hviður öðru hverju og skúrir segir í lýsingu Skíðafélagsins á aðstæðum.

Skíðafélag Strandamanna þakkar keppendum fyrir þátttökuna og starfsfólki mótsins fyrir vel unnin störf.

Í skíðamótinu var keppt í göngu í átta flokkum. Í 10 km göngu í karlaflokki 17 ára og eldri varð Birkir Þór Stefánsson langfyrstur. Ragnar Bragason annar og Rósmundur Númason þriðji.  Í kvennaflokki sigraði Sigríður Drífa Þórólfsdóttir.

Keppt var í sex flokkum barna og unglinga í 1,5 til 3,3 km göngu.  Þátttaka var góð og er unglingastarf félagsins greinilega í miklum blóma. Yngsti keppendurnir eru fæddir 2012 og því aðeins á 8. ári.

Skíðafélag Strandamanna var stofnað árið 19. nóvember 1990 og er starfssvæði þess í Selárdal við Steingrímsfjörð.

Myndir: Ragnar Bragason.