Snjóflóð – Lögreglan biður fólk að fara varlega og fylgjast með tilkynningum

Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að aðgerðarstjórn á norðanverðum Vestfjörðum og samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð voru virkjaðar rétt fyrir miðnætti 15. janúar, vegna þriggja snjóflóða sem féllu á norðanverðum Vestfjörðum með stuttu millibili. Eitt flóðið féll í hlíðinni til móts við Suðureyri, n.t.t. Norðureyri, sem olli því að flóðbylgja skall á hafnarsvæðinu og fjörunni við Suðureyri. Voru nokkur hús rýmd í kjölfarið vegna frekari hættu. Engin slys urðu á fólki, en eftir er að meta eignatjón.

Tvö flóð féllu á Flateyri, beggja vegna snjóflóðavarnagarðsins. Annað þeirra hafnaði á húsi efst og yst í þorpinu og grófst ung stúlka í flóðinu. Björgunarsveitarfólk á Flateyri bjargaði henni skömmu síðar. Aðrir íbúar hússins komust út af sjálfsdáðum. Hitt flóðið féll í sjó við smábátahöfn og varð eignatjón á skipum og mannvirkjum.

Allir viðbragðsaðilar á svæðinu voru boðaðir út, auk þess sem varðskipið Þór aðstoðaðið við ferjun bjarga og þeirra sem lentu í flóðinu. Varðskipið var statt við bryggju á Ísafirði þegar flóðin féllu.

Þá voru nokkur hús á norðanverðum Vestfjörðum rýmd vegna snjóflóðahættu.

Hnífsdalsvegi og Skutulsfjarðarbraut var lokað að kvöldi 14. janúar vegna snjóflóðahættu, og verða þeir opnaðir um leið og aðstæður bjóða, að höfðu samráði við Veðurstofu Íslands og Vegagerð. Þá er lokað fyrir umferð um gömlu byggðina í Súðavík vegna snjóflóðahættu, sem og vegurinn um Hafrafellsháls í Skutulsfirði. Þá er fólk beðið um að vera ekki á ferðinni við hafnarsvæðið á Suðureyri vegna flóðbylgjuhættu.

Mjög torfært er um þéttbýlisstaði vegna snjóa, og vegir enn lokaðir milli þéttbýliskjarna vegna ófærðar. Unnið er að hreinsun vega eins og veður og aðstæður leyfa.

Veðurspá gerir ráð fyrir að úrkoma og vindur muni lægja um og eftir hádegi og að veður verði orðið skaplegt undir kvöld.

Lögregla biður almenning um að virða lokanir.

http://www.vegagerdin.is/…/faerd-og-…/vestfirdir-faerd-kort/ og upplýsingasímann 1777 og facebooksíðu lögrelgunnar á Vestfjörðum og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.