Skólar í Strandabyggð sameinaðir

Unnið er að því að sameina leik-, grunn- og tónskóla Strandabyggðar í eina rekstrareiningu.

Vinna við innleiðingu sameiningarinnar er í höndum sérstaks vinnuhóps auk verkefnastjóra frá Tröppu ehf.

Kennsla í skólunum verður með óbreyttu sniði fram á vor, en í haust er áætlað að kennslan fari fram undir formerkjum sameinaðs skóla, og verður þá búið að skilgreina og skipuleggja hvernig kennslan og skólastarfið mun tvinnast saman. Þegar er hafin vinna í sérkennsluteymi út frá hagsmunum og forsendum sameinaðs skóla.

Núna í janúar verður unnið að skipulagsbreytingum og gerð skipurits fyrir sameinaðan skóla. Þegar er búið að ganga frá breytingum varðandi yfirstjórn og frá 1. janúar 2020 telst Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir skólastjóri sameinaðs skóla og Alma Benjamínsdóttir er aðstoðarleikskólastjóri.

Verið er að vinna að sameiginlegri fjárhagsáætlun og hófst sú vinna s.l. haust, í tengslum við fjárhagsáætlanagerð sveitarfélagsins.
Þá þarf að hugleiða hvort sameinaður skóli þurfi ekki nýtt nafn.