Skólamáltíðir 76% dýrari hjá Ísafjarðarbæ en í Fjarðarbyggð

Í úttekt ASÍ á heildargjöldum  fyrir skóladagvistun og skólamat hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins kemur fram að mánaðargjald fyrir skólamáltíðir er hæst hjá Ísafjarðarbæ, 11.130 kr. sem er 76% hærra en í Fjarðarbyggð þar sem verðið er lægst, 6.300 kr. Næst hæst eru gjöld fyrir skólamáltíðir á Seltjarnarnesi, 10.899 kr. en þau þriðju hæstu í Vestmannaeyjumm, 10.353 kr. Næst lægstu gjöldin er að finna á Akranesi, 7.959 kr en þau þriðju lægstu í Sveitarfélaginu Árborg, 8.001 kr.

Mikill munur er á heildargjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat milli sveitarfélaga en 68% eða 17.157 kr. munur er hæstu gjöldunum sem eru á Seltjarnarnesi, 42.315 kr. og þeim lægstu í Fjarðarbyggð, 25.158 kr. Munurinn á hæstu gjöldunum og þeim lægstu er því 154.413 kr. á ári. Samkvæmt töflu ASÍ eru gjöldin í  Ísafjarðarbæ þau fimmtu hæstu af þessum 15 sveitarfélögum.

Systkinaafsláttur

Einnig var aflað upplýsinga um afslátt vegna systkina. Samkvæmt töflu ASÍ er minnstur afsláttur vegna 2. barns 25% hjá þremur sveitarfélögum og er Ísafjörður í þeim hópi. Hins vegar er mikill afsláttur vegna þriðja barns á Ísafirði. Er Ísafjörður í 6. sæti af 15 í  samanlögðum afslætti  2. og 3. barns

Um samantektina
Samanburðurinn var gerður á gjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat í 15 stærstu sveitarfélögum landsins. Til að einfalda samanburð milli sveitarfélaga miðar verðlagseftirlitið við mánaðargjald, 21 dag og vistun í þrjá tíma á dag eða 63 tíma í mánuði ásamt hressingu (x21) og hádegismat (x21). Ávaxtastund og mjólkuráskrift sem oft eru í boði eru ekki með í verðsamanburðinum. Ekki er tekið tillit til seðilgjalda eða annarra innheimtugjalda sem leggjast oft ofan á gjöldin.

Einungis er um verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði þjónustunnar.