Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í Suðurkjördæmi

Páll Magnússon verður áfram 1. þingmaður Suðurkjördæmis samkvæmt könnuninni.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi mest fylgi í næstu Alþingiskosningum samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana  3. – 13 . janúar 2020. Byggt er á 250 svörum úr kjördæminu en alls voru  liðlega 2000 svarendur í heild. Vikmörkin eru 4,0 – 4,5% fyrir stærstu flokkana í könnuninni.

Það voru alls 26% sem gáfu ekki upp afstöðu til flokkanna  heldur eru óákveðnir, kjósa ekki, skila auðu eða  vilja ekki svara. Þetta er hæsta hlutfallið af kjördæmunum átta.

En af þeir sem gáfu upp afstöðu til flokkanna voru flestir sem styðja Sjálfstæðisflokkinn eða 19,1%. Miðflokkkurinn er næststærstur með 17,7%, þá Samfylkingin sem fengi 13,8%, Vinstri grænir 10,1%, Viðreisn 9,7%, Píratar 9,2%, Flokkur fólksins 3,6%, Sóslíalistaflokkurinn 1,8% og aðrir 1,9%.

Stjórnarflokkarnir tapa allir fylgi

Allir stjórnarflokkarnir tapa fylgi miðað við þessa könnum. Sjálfstæðisflokkurinn tapar mestu eða 6,1%, sem er nærri 1/4 af fylginu í kosningunum 2017.  Framsóknarflokkurinn tapar 5,5% af sínu fylgi  eða nærri 1/3 af fylginu. Vinstri grænir halda best í kosningafylgið en tapa samt 1,7%. Þá hrynur fylgið af Flokki fólksins. Það var 8,9% en mælist núna aðeins 3,6%.

Stjórnarandstöðuflokkunum vegna betur í könnuninni en stjórnarflokkunum. Viðreisn er hástökkvarinn í þeim hópi og auka fylgið úr 3,1% í 9,7%. Samfylkingin eykur fylgið um 4,4% og Miðflokkurinn um 3,4%.  Píratar bæta við sig 2,1%.

Miðflokkur og Viðreisn vinna þingsæti

Sé kjördæmaþingsætunum níu skipt milli flokkanna fengi Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn tvo þingmenn hvor. Samfylking, Framsóknarflokkur, Vinstri grænir, Viðreisn og Píratar fengju einn mann hver.

Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Flokkur fólksins  tapa einu þingsæti hver, en Miðflokkurinn bætir við sig manni. Þá fengju Píratar kjördæmakosinn þingmann en hafa nú jöfnunarþingsætið. Athyglisvert er að að Miðflokkurinn vinni þingsæti og Flokkur fólksins tapi sínu þingsæti í ljósi þess að kjörinn þingmaður Flokks fólksins færði sig yfir til Miðflokksins eftir að hafa verið vikið úr flokknum. Ef til vill hafa kjósendurnir fært sig milli flokkanna í kjölfarið.

Annar maður Samfylkingar er næstur því að ná 9. þingsætinu og vinna það af Miðflokknum, þá kemur 2. maður Framsóknarflokksins og svo á hæla honum 3. maður Sjálfstæðisflokksins.

Sem fyrr er óvíst hvern hreppir jöfnunarsætið en þó eru líkur til þess að Samfylkingin gæti náð því miðað við dreifingu fylgisins um landið.

DEILA