Patreksfjörður: ofanflóðavarnir hefjast í vor

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að stefnt sé að því að gerð varnargarða við Mýrar, Hóla og Urðir á Patreksfirði hefjist í vor. Það er Suðurverk ehf sem fékk verkið að loknu útboði sem fór fram í fyrrasumar.

Suðurverk var lægstbjóðandi og bauð 1.311 milljónir króna í verkið. Kostnaðaráætlun var 1.210 milljónir króna. Þrjú önnur tilboð bárust.  Verkinu skal vera lokið eigi síðar en 1. desember 2023.

Verkið felst í gerð snjóflóðavarnargarða ofan við byggðina á Patreksfirði. Í verkinu felst einnig flutningur trjágróðurs, mótun yfirborðs skeringa flóðmegin við garða, gerð vinnuvega, varanlegra slóða, gangstíga og tröppustíga og áningarstaða, gerð drenskurða, táskurða og lagning ræsa, formun vatnsfarvega, jöfnun yfirborðs og frágangur og fleira.

Þá felst einnig í verkinu að færa hitaveitulögn Orkubús Vestfjarða (OV), vatnslögn sveitarfélagsins og strengi í eigu OV og Mílu.

Meðal magntalna verksins eru 280 þúsund rúmmetra fyllingar, losun á 10 þúsund rúmmetrum af klöpp og 10.600 fermetra af styrkingakerfi.

DEILA