Ófærð og slæm veðurspá

Mikil ófærð er nú a Vestfjörðum. Þannig er vegurinn um Ísafjarðardjúp lokaður og verður ekki mokaður í dag. Þá er ófært um Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda. Þungfært og skafrenningur er á Mikladal og veginum um Hálfdán. Þá er Klettsháls lokaður og verður ekki opnaður í dag.

Þá er veðurspáin fyrir næsta einn og hálfan sólarhring mjög slæm og hefur verið gefin út appelsínugul viðvörun.

Í spánni segir að búast megi við norðaustan 20-28 metrum á sekúndu, hvassast á heiðum með vindhviðum yfir 40 m/s í vindstrengjum við fjöll. Snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni og ekkert ferðaveður. Hætta á foktjóni. Einnig er vert að nefna að það er nærri stórstreymt og vegna lágs loftþrýstings má búast við óvenju hárri sjávarstöðu á flóði.

Þá er í gildi óvissustig vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum.

DEILA