Kraginn: Vinstri grænar tapa mestu fylgi og einu þingsæti

Vinstri grænir tapa mestu fylgi í Suðvesturkjördæmi í næstu Alþingiskosningum samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana  3. – 13 . janúar 2020. Byggt er á tæplega 600 svörum úr kjördæminu en alls voru  liðlega 2000 svarendur í heild. Vikmörkin eru um 3% fyrir stærstu flokkana í könnuninni.

Það voru alls 20% sem gáfu ekki upp afstöðu til flokkanna  heldur eru óákveðnir, kjósa ekki, skila auðu eða  vilja ekki svara.

Af þeim sem tóku afstöðu völdu 27,4% Sjálfstæðisflokkinn. það er 3,5% minna fylgi en flokkurinn fékk í síðustu alþingiskosningum. Engu að síður hefur flokkurinn yfirburðafylgi í kjördæminu.  Samfylkingin er næst stærst með 14,8% fylgi og bætir við sig 2,7%.  Viðreisn er í þriðja sæti og er sá flokkur sem bætir mestu fylgi við sig. Í könnuninni fær Viðreisn 13,3% en var með 9,5% og eykur fylgi sitt um 3,8%.

Píratar eru í fjórða sæti í Suðvesturkjördæmi með 10,1% fylgi  og hækka um 1,8%.

Miðflokkurinn er með 9,6% fylgi sem er nánast það sama og 2017. Vinstri grænir fá nú 9,0% fylgi og missa 4,6%, höfðu 13,6% í síðustu alþingiskosningum.

Framsóknarflokkurinn mælist með 6,1% fylgi en hafði 7,9%. Flokkur fólksins tapar verulegu fylgi, var með 6,5% en fær nú 3,6%.

Sósíalistaflokkurinn er nýr í könnuninni og fær 3,9% fylgi.  Önnur framboð mælast með 2,0%.

Samfylking og Viðreisn vinna þingsæti

Þegar skoðuð er skipting kjördæmaþingsætanna 11 samkvæmt þessari könnun þá fær Sjálfstæðisflokkurinn 4 þingsæti eins og áður. Samfylking og Viðreisn fá  2  hvor og bæta við sig einu þingsæti. Reyndar hefur Viðreisn tvo þingmenn nú , en annar þeirra er jöfnunaþingmaður svo flokkurinn fær tvo kjördæmakosna en hafði einn áður.

Flokkur fólksins tapar sínu þingsæti. Vinstri grænir tapa einu þingsæti og fá einn þingmann og Framsóknarflokkurinn tapar sínu þingsæti.

Ekki er unnt að spá fyrir um hvar  jöfnunarþingsætin tvö lenda, en þau eru nú hjá Viðreisn og Flokki fólksins.

Síðasta kjördæmaþingsætið lendir hjá Viðreisn með 6,65% og Framsóknarflokkurinn er næstur þar á eftir alveg á hælunum á 2. manni Viðreisnar.