knattspyrna : Vestri býr sig undir 1. deildina

Knattspyrnulið Vestra sem vann sér sæti í fyrstu deildinni á síðasta keppnistímabili hefur hafið undirbúning að komandi tímabili sem hefst með leik 2. maí í Ólafsvík.

Nokkrar mannabreytingar hafa orðið á liðinu. Að sögn Samúels Samúelssonar formanns knattspyrnudeildar Vestra hafa þrír leikmenn bæst við. Það eru þeir Nacho Gil sem kemur frá Þór, Sergine Modou Fall frá Óman og Vladimir Tufegdzic frá Grindavík.

Einir sex leikmenn frá síðasta sumri eru farnir. Það eru  Aaron Spear, Hákon Ingi Einarsson og Páll Sindri Einarsson sem eru gengnir til liðs við Kórdrengi, Gunnar Jónas Hauksson sem fór aftur til Gróttu, en hann var lánsmaður, Josh Signey fór til Nýja Sjálands og
Þórður Gunnar Hafþórsson gekk til liðs við úrvalsdeildarlið  Fylkis.

Samúel sagði að það væri alltaf erfitt að sjá á eftir heimamönnum eins og Þórði Hafþóri.

Undirbúningur fyrir sumarið er að hefjast segir Samúel, en erlendu leikmennirnir eru margir  hverjir ekki komnir til landsins.  Það gerir það að verkum að í leikjum Vestra nú í janúar hefur verið teflt fram ungum leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Vestri hefur spilað þrjá leiki í B deild móts Fotbolti.net. Fyrsti leikurinn var gegn Keflavík og tapaðist hann 3:1. Næsti leikur var gegn Haukum og Hafnfirðingarnir unnu 3:0. Í þriðja leiknum tapaði Vestri gegn Þrótti í Vogum 2:3. Mörk Vestramanna skoruðu Sigurður Hannesson og Guðmundur Svavarsson, ungir og efnilegir leikmenn.

Þjálfari Vestra er áfram  Bjarni Jóhannsson.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!