Ísafjörður: Guðmundur sagði upp

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta var það Guðmundur Gunnarsson sem sagði upp störfum með tölvupósti sem hann sendi á nokkra bæjarfulltrúa. Bæjarfulltrúar meirihlutans verjast allra fregna af ástæðum þess.  Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Í listans sagði á bb.is í gær það blasa við að um samstarfsörðugleika hafi verið að ræða.

Eftir því sem heimildir Bæjarins besta herma munu þeir örðugleikar hafa staðið yfir um nokkurt skeið og hafa ekki einskorðast við samskipti milli fráfarandi bæjarstjóra og bæjarfulltrúa meirihlutans heldur hefur gætt stirðleika gagnvart minnihlutanum og einnig sumum stofnunum bæjarins.

Erfiðlega hefur gengið að fá nánari lýsingu á einstökum atvikum enda var um það samið við starfslokin að ekki yrðu gefnar skýringar og bæjarfulltrúar meirihlutans gengust undir það.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarritari og starfandi bæjarstjóri staðfesti í svari við fyrirspurn  Bæjarins besta um efni starfslokasamningsins að ekki hafi verið gengið frá samninginum  við Guðmund Gunnarsson.