Ísafjörður : 10 m.kr. í Ísland ljóstengt

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur  samþykkt breytingu á fjárhagsáætlun ársins vegna verkefnisins Ísland ljóstengt. Bærinn leggur fram 10 m.kr. til verkefnisins á móti 7,3 m.kr. framlagi Fjarskiptasjóðs og 5 m.kr. byggðastyrks ráðherra. Samtals verða því 22,3 milljónir króna til ljósleiðaravæðingar. Það er Snerpa sem vinnur verkið og sagði Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Snerpu að lagður yrði strengur í Önundarfirði í sumar, frá Kirkjubóli í Korpudal og út í Hjarðardal og til Kirkjubóls í Bjarnardal.

Útgjöldum bæjarsjóðs er mætt með því að lækka ófyrirséðan kostnað um 5,5 m.kr. og  lækun á styrk til Upplýsingamiðstöðvar Vestfjarða um 4,5 m.kr.  segir í minnisblaði til bæjarráðs að Upplýsingamiðstöðin hafi fengið tekjur sem ekki var gert ráð fyrir.