Ísafjarðarbær: 1.120 tonna byggðakvóti

Atvinnuvegaráðuneytið hefur tilkynnt Ísafjarðarbæ um hlut byggðarlaga innan sveitarfélagsins í byggðakvóta yfirstandandi fiskveiðiárs. Samtals fá byggðarlögin fimm 1.120 þorskígildistonn af 5.374 tonnum sem til ráðstöfunar eru. Er hlutur Ísafjarðarbæjar 20,5% af heildarbyggðakvótanum.

Mest kemur í hlut Flateyrar eða 300 þorskígildistonn. Til Þingeyrar renna 281 tonn, Hnífsdals 207 tonn, Suðureyrar 192 tonn og til Ísafjarðar 140 tonn.

Á síðasta fiskveiðiári fengu byggðarlög innan Ísafjarðarbæjar 19% af heildarkvótanum og hefur því hlutur sveitarfélagsins heldur aukist frá fyrra fiskveiðiári.  Þá var hins vegar úthlutað 7.889 tonnum og 1.507 tonn fóru til Ísafjarðarbæjar, svo magnið er heldur minna.

Vilji bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggja til við ráðuneytið að sett verði sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins eða einstakra byggðarlaga þarf að hún skila rökstuddum tillögum sínum til ráðuneytisins eigi síðar en 27. janúar 2020.

Bæjarráðið fóll bæjarstjóra að boða útgerðarmenn til fundar vegna sérreglna við úthlutun byggðakvóta til Ísafjarðarbæjar.

DEILA