Íbúum fjölgaði á Vestfjörðum 2019 – mest í Vesturbyggð

Bíldudalur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði um 55 á árinu 2019 samkvæmt tölum sem Þjóðskrá íslands hefur birt. Í byrjun árs, þann 1. janúar 2020 voru 7.118 manns  búsettir í fjórðungnum en voru 7.064 réttu ári áður. Fjölgunin nemur 0,8%. Landsmönnum fjölgaði um rúmlega 7.000 manns á árinu eða um 2%. Íbúafjölgunin á Vestfjörðum er aðeins 40% af landsfjölguninni. Fjölgunin á Vestfjörðum hefði þurft að vera 141 í stað 55 til að halda í við almenna íbúafjölgun.

 

Fjölgun varð í öllu sveitarfélögum á Vestfjörðum á árinu 2019 nema Tálknafirði, þar sem varð 2,7% fækkun. Mest varð fjölgunin í Vesturbyggð. Þar fjölgaði um 23 íbúa. Næstmest fjölgun var í Ísafjarðarbæ en þar bættust 11 manns við. Athyglisvert er að fjölgun varð í öllum þremur sveitarfélögum í Strandasýslu. Samtals fjölgaði um 17 manns í sýslunni úr 592 í 609 manns sem gerir 2,9% fjölgun. Það er liðlega þrefalt meiri fjölgun hlutfallslega mælt en á Vestfjörðum í heild.

Mest fjölgun hlutfallslega varð í Árneshreppi 7,5% og næstmest í Kaldrananeshreppi 5,8%.

Segja má að fjölgunin hafi verið mest í þeim sveitarfélögum þar sem umsvifin voru mest,  í Vesturbyggð vegan laxeldisins og í Árneshreppi vegan virkjunaráforma.

DEILA