Háskólasetur: Skólastjóri Lýðskólans á Flateyri í vísindaporti

Gestur í Vísindaporti vikunnar er Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólastjóri Lýðskólans á Flateyri og er það einmitt þessi skóli sem hún ætlar að beina sjónum að í erindi sínu. Lýðskólinn á Flateyri er ung skólastofnun og settist fyrsti árgangur nemenda þar á skólabekk haustið 2018. “Lýðskólinn á Flateyri er samfélag nemenda og kennara sem býður fólki tækifæri til að þroskast og mennta sig í samstarfi við íbúa á Flateyri”, en á þá leið er skólanum lýst á vefsíðu hans.

Þetta er skólasamfélag þar sem nemendur fá að mennta sig á eigin forsendum, en nám við lýðskóla er ólíkt námi við hefðbundna framhaldsskóla, þar sem áhersla er á að nemendur fái í gegnum leik og störf að prófa sig við ólík viðfangsefni. Minna er lagt upp úr að notast við skólabækur eða láta nemendur taka próf.

Fyrir skömmu gerðust alvarlegir atburður á Flateyri, þegar tvö snjóflóð féllu þar seint að kveldi 14. janúar, en atburðurinn hafði eðlilega mikil áhrif á þorpsbúa og þeirra daglega líf, hvort sem um var að ræða eignamissi og/eða sálrænar afleiðingar.

Í erindi sínu vill Ingibjörg skoða skólann sinn í þessu samhengi og veltir hún fyrir sér hvernig einn atburður getur breytt hugmyndum og upplifun okkar á svipstundu, þar sem atburðurinn er ógnandi og afleiðingarnar bæði erfiðar og fallegar. Orðar hún það svo, að litli lýðskólinn hafi á einni nóttu farið úr því að vera „bara“ lýðskóli yfir í það að vera lýðskóli, miðstöð fyrir áfallahjálp og fjölskylda.

Ingibjörg Guðmundsdóttir tók við stöðu skólastjóra Lýðskólans á Flateyri haustið 2019. Sér Ingibjörg auk daglegs reksturs um samskipti, stuðning og aðstoð við nemendur, á skólatíma sem utan hans.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!