Grunnskóli Ísafjarðar: 40. þorrablót 10.bekkjar að baki

Síðastliðinn föstudag buðu foreldrar nemenda í 10. bekk árganginum á þorrablót þar sem nemendur ásamt foreldrum og fjölskyldum mættu í sínu fínasta pússi og áttu saman ánægjulega kvöldstund, ásamt starfsfólki skólans.

Skemmtiatriði voru í boði foreldra og starfsmanna, auk þess sem gömul og þjóðleg lög voru sungin yfir borðhaldinu.

Að borðhaldi loknu var stiginn dans við undirleik þeirra Benedikts Sigurðssonar, Helga Hjálmtýssonar og Jóns Hallfreðs Engilbertssonar. Dansinum stýrði Hlíf Guðmundsdóttir, fyrrverandi kennari við GÍ, en hún hefur stýrt dansæfingum 10. bekkjar undanfarnar vikur ásamt Sveinbirni Björnssyni og boðið foreldrum upp á upprifjun á gömlu dönsunum, í fjarveru Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur, danskennara.

Æfingarnar komu sér svo sannarlega vel og þorrablótsgestir dönsuðu stanslaust í tvær klukkustundir og ekki var að sjá neitt kynslóðabil á dansgólfinu.

Þorrablót þetta hefur verið haldið allt frá árinu 1981 og var þetta því 40. blótið. Þetta er svo sannarlega skemmtileg hefð sem allir njóta og verður vonandi viðhaldið um ókomin ár.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!