Flateyri: húsfyllir á fundi

Frá fundinum í Félagsbæ á Flateyri. Mynd: Anna Jónína Guðmundsdóttir.

Húsfyllir var á íbúafundi sem haldinn var í dag á Flateyri.  Guðmundur Björgvinsson, sagði að fundurinn hefði verið góður og upplýsandi. Þarna voru mættir fulltrúar frá þeim aðilum sem koma að aðgerðum eftir snjóflóðin sem féllu fyrir helgina, svo sem lögreglu, Landhelgisgæslu, Ríkislögreglustjóra, Veðurstofunni, Ofanflóðanefnd, heilbrigðisstofnun Vestfjarða, björgunarsveita og starfsmanna Ísafjarðarbæjar.  Guðmundur sagði að af hálfu heimamanna væri mikið þakklæti í garð allra sem komu að aðgerðum.

Fram kom að séfræðingar munu skoða hönnun garðanna með það  fyrir augum að bæta hana og auka öryggi.

Guðmundur Björgvinsson lagði áherslu á að það yrði að verja höfnina og krafa væri uppi um að störf yrðu í byggðinni. Gagnrýndi hann ákvörðun Byggðastofnunar um ráðstöfun á  sérstökum byggðakvóta fyrir Flateyri.

Eins sagði hann það vera dapurlegt að það þyrfti þennan  atburð til þess að opna augu ráðamanna í heilbrigðismálum fyrir því að það þyrfti lágmarksviðbúnað staðsettan á Flateyri. Heilbrigðisstofnunin væri ekki með neitt á Flateyri, hvorki húsnæði, aðstöðu, lyf né annað sem hafa þyrfti við hendina. Það væri helst um borð í bátunum sem verið hefði sjúkrakassar en þeir hefðu ekki verið aðgengilegir af augljósum ástæðum. Guðmundur sagði að björgunarsveitin hefði einhverja sjúkrakassa.

Ef heilbrigðisstofnunin þyrfti fé þá væri það ráðamanna að koma með það.

Að lokum lagði Guðmundur Björgvinsson áherslu á mikinn vilja og kraft heimamanna til þess að endurreisa Flateyri eftir þetta áfall.

DEILA