Flateyri: byggðakvótinn verður unninn á Suðureyri og í Súðavík

Byggðastofnun hefur ákveðið að ganga til samstarfs við Vestfirsk ehf og samstarfsaðila, sem eru Íslandssaga ehf, Aurora Seafood ehf og Klofningur ehf.  Fyrirtækið Vestfirskur ehf mun halda utanum verkefnið en stofnað verður félag á Flateyri um reksturinn og eignir þar.

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta verður kvótinn veiddur af skipi sem skráð verður á Flateyri, en fiskaflinn verður unninn á Suðureyri og í Súðavík. Vinnslan á sæbjúgunum er áformuð á Flateyri.

Nýtt félag – 200 m.kr.

Ætlun umsækjenda er að veiða sæbjúgu til blautvinnslu og þurrkunar í afurðir fyrir manneldi og gæludýr. Áætlað er að leggja um 200 m.kr. í hlutafé í verkefnið á næstu tveimur árum. Aurora Seafood ehf er með þrjú sæbjúgnaleyfi fyrir 30% af heildarveiði sæbjúgna árlega.

Ætlunin er að útgerð Aurora fari inn í nýja félagið og að gert verði út frá Flateyri. Þar með skapast 6 störf í útgerð á Flateyri. Sæbjúgnavinnsla mun auk þess skila 7 störfum á næstu tveimur árum og gæludýrafóðurframleiðsla mun á sama tíma skila 10 störfum á Flateyri. Eitt nýtt starf verður þá til á Flateyri hjá verktaka sem sér um flutninga hráefnis fyrir Klofning og Íslandssögu. Á Suðureyri munu skapast 5 ný störf hjá Fiskvinnslu Íslandssögu og 2 ný störf á Súðavík hjá Vestfiski. Áætlar Byggðastofnun að samtals muni skapast 31 starf til viðbótar við þau sem verður viðhaldið.

Bátur Aurora mun veiða sæbjúgun og aflamarkið sem Byggðastofnun úthlutar, 400 þorskígildi á ári í 6 ár.  Mótframlag umsækjenda er 400 tonn af sæbjúgum og krossfiski auk þess sem að Klofningur leggur til 700 tonn af roði og hefur yfir að ráða 3-4000 tonnum af hryggjum.

Ætlunin er að selja hvítfiskinn óunninn til Íslandssögu á Suðureyri á verðlagsstofuverði og félagið fái síðan endurgreitt frá Íslandssögu hluta af framlegð vinnslu aflans.

Í umsögn aflamarksnefndar Byggðastofnunar segir að  verkefnið sýnist „vel til þess fallið að efla atvinnulíf almennt á vinnusóknarsvæði sem nær frá Flateyri allt til Súðavíkur. Stjórnendur og forsvarsmenn hafa sýnt sig að vera áreiðanlegir, eru að uppistöðu heimamenn með allt sitt fé og hagsmuni bundna í atvinnurekstri á svæðinu og félögin hafa gott lánshæfismat.“

Í auglýsingu Byggðastofnunar frá 9. ágúst í sumar eftir samstarfsaðilum á Flateyri segir :

Á grundvelli reglugerðar nr. 643/2016 auglýsir Byggðastofnun eftir samstarfsaðilum um nýtingu viðbótaraflaheimilda á Flateyri í Ísafjarðarbæ – allt að 400 þorskígildistonn.