Fiskeldi- Útflutningsverðmæti 24 milljarðar- Helmingur frá Vestfjörðum

Á árinu sem er að líða stefnir í að útflutningsverðmæti fiskeldis verði um 24 milljarðar króna. Áætla má að útflutningsverðmæti laxeldis verði um 18 milljarðar og bleikju og regnbogasilungs allt að 5 milljarðar. Að auki eru flutt út laxaseiði og fleiri tegundir.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var verðmæti fiskeldisútflutningsins um 22,7 milljarðar króna á fyrstu 11 mánuðum ársins. Einar K. Guðfinnsson sem starfar að málefnum fiskeldis hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, segir vöxt greinarinnar mikinn. Hann telur líklegt að útflutningsverðmætið í ár muni nema um 24 milljörðum króna. „Á næsta ári erum við að gera ráð fyrir áframhaldandi vexti og gætum farið yfir 30 milljarða. Verð á laxaafurðum sveiflaðist nokkuð á þessu ári, en nú er það sögulega mjög hátt.“

Mestallt fiskeldi hér á landi er á Vestfjörðum og Austfjörðum og er þess farið að gæta með afgerandi hætti á báðum svæðunum. Einar segir að nær þrjú hundruð manns starfi við fiskeldi á Íslandi, í beinum störfum og síðan sé annað eins í afleiddum störfum. Reynsla manna frá Noregi bendir til þess að hvert starf í eldinu skapi þrjú ­til fjögur störf í nærumhverfinu.

DEILA