Fasteignaviðskipti: 20 samningar í desember 2019 á Vestfjörðum

Á Vestfjörðum var 20 samningum um viðskipti með fasteignir þinglýst í síðasta mánuði. Þar af voru 4 samningar um eignir í fjölbýli, 7 samningar um eignir í sérbýli og 9 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 465 milljónir króna og meðalupphæð á samning 23,2 milljónir króna. Fjárhæð samninganna um fjölbýli var 107 milljónir króna, sérbýlið var 168 milljónir króna og aðrar fasteignir seldust fyrir 190 milljónir króna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Þjóðskrá Íslands.

Af þessum 20 voru 10 samningar um eignir á Ísafirði. Þar af voru 4 samningar um eignir í fjölbýli  (107 m.kr.), 5 samningar um eignir í sérbýli ( 134 m.kr.) og 1 samningur um annars konar eign ( 18 m.kr.). Heildarveltan var 259 milljónir króna og meðalupphæð á samning 25,9 milljónir króna.

Utan Ísafjarðar voru gerðir 10 samningar. Tveir samningar um sérbýli fyrir 34 milljónir króna og 8 samningar um aðrar faseignir fyrir 172 milljónir króna.

Nærri 60% verðmunur innan Vestfjarða

Verðmunur innan Vestfjarða á sérbýli var verulegur í desember 2019. Á Ísafirði er meðalverðið 27 milljónir króna á samning en aðeins 17 milljónir króna utan Ísafjarðar. Athuga ber að ekki eru bornar saman eignir heldur horft til samninganna. Um gæti verið að ræða ósambærilegar eignir.