Enn rafmagnsleysi í Önundarfirði

Vandræði með rafmagnsflutninga á Vestfjörðum halda áfram. Um hálf fjögur sendi Orkubú Vestfjarða frá sér tilkynningu um að búið væri að staðfesta að ráðast þarf í hreinsun á tengivirki Landsnets í Geiradal. Undirbúningur væri þegar  þegar hafinn.

því fylgir að  áður en hreinsun hefst þarf að gera allt tengivirkið spennulaust og vegna þess „verður rafmagnslaust hjá notendum á Króksfjarðarnesi, Gilsfirði, Gufudalssveit og Reykhólasveit á meðan hreinsun stendur. Ekki er hægt að segja á þessari stundu hvenær hreinsun hefst og hversu lengi hún mun taka.“

Næsta tilkynning kom klukkan 16:54. Þá  „leysti Ísafjarðarlína 1 út. Bolungarvíkurlína 1 leysti út fyrr í dag og vegna þess er nú tengivirki Landsnets í Breiðadal spennulaust og er allur Önundarfjörður því rafmagnslaus. Unnið er að keyra upp varaafl á Flateyri.“

Skömmu seinna var upplýst að varaafl væri  komið í gang á Flateyri. Ekki er hægt að keyra á allan bæinn í einu og því er skömmtun í gangi. Íbúar á Flateyri eru beðnir um að fara sparlega með rafmagnið á meðan varaaflskeyrslu stendur.

Indriði Aðalsteinsson bóndi á Skjaldfönn setti inn færslu um veðrið seinni partinn í dag. Hún lýsir ágætlega stöðunni í Djúpinu:

Varla húsaveður

„Nú er ekkert guðsbarnaveður í Skjaldfannardal.Það brast á í gærkveldi með sótsvartri austan stórhríð og veðurhæð vel yfir 20 m. Um hádegisbilið var ég að bræða það með mér að fara ekki í fjárhús,en rak svo hausinn í veðrið,gaf einmælt og var að koma í bæinn.

Ofsinn var við það að kasta mér á undanhaldinu, þrátt fyrir mín 100 kg. í öllum herklæðum, mannbrodda og ísbjarnatvíhendu broddstöng.  Eftir hádegið voru rafmagnstruflanir vegna seltuútsláttar í Glerárskógaspennistöð, en Jóhanna í Svansvík sér okkur nú fyrir ljósi og yl með því að sitja yfir varadíselaflinu í Reykjanesi.“

Sr Hjálmar Jónsson, fyrrv dómprófastur og alþingismaður sendi Indriða um hæl þessa stöku:

Oft er svo friðsælt í fjallanna sal,
þá fegurð allt landsvæðið kynnir.
Þótt skafi og hríði í Skjaldfannardal
skepnunum Indriði sinnir.

 

DEILA