Ekki hagkvæmara að skipa sjálfstæðar stjórnsýslunefndir

Algengt er að ráðherrar skipi nefndir um einstök málefni. Þannig hefur á síðustu vikum og mánuðum verið greint frá nokkrum slíkum á vef stjórnarráðsins.

Páll Hreinsson hefur nú afhent Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra skýrslu um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir. Ríkisstjórnin samþykkti í nóvember 2018 að fela Páli að gera úttekt á starfsemi sjálfstæðra stjórnsýslunefnda í tilefni af 25 ára afmæli stjórnsýslulaganna 1. janúar 2019.

Alls féll 61 stjórnsýslunefnd undir rannsóknina en þær heyra undir mismunandi ráðuneyti. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lögð hafa verið til grundvallar þegar sjálfstæðum stjórnsýslunefndum hefur verið komið á fót. Meðal algengra sjónarmiða sem færð hafa verið fyrir því að koma á fót slíkum nefndum eru skilvirkni- og kostnaðarsjónarmið, réttaröryggissjónarmið, kröfur um samræmi í lagaframkvæmd, skortur á tiltekinni sérfræðiþekkingu innan ráðuneyta, að ráðherra fari með fyrirsvar almannahagsmuna sem eru ósamrýmanleg stöðu hans sem óháðs úrskurðaraðila í kærumáli og að lokum að mikill fjöldi kærumála er á hlutaðeigandi sviði.

Skýrslan leiðir hins vegar í ljós að almennt virðist ekki hagkvæmara að skipa sjálfstæða stjórnsýslunefnd frekar en að vista mál í hefðbundnum farvegi stjórnsýslunnar.
Meðferð mála hjá nefndunum er ekki í öllum tilvikum skilvirkari en í ráðuneytunum og einnig er ljóst að hjá sumum nefndum getur verið brotalöm á að starfsaðstaða, skjalastjórn og upplýsingaöryggi sé viðunandi.

DEILA