Efast um lögmæti lögþvingaðrar sameiningar sveitarfélaga

Bragi Thoroddsen sveitarstjóri í Súðavíkurhreppi efast um lögmæti áformaðrar sameiningar sveitarfélaga. Hann skrifar um málið á vefsíðu Súðavíkurhrepps og ræðir þar um sýn ráðuneytis sveitarstjórnamála sem er að ekkert sveitarfélag skuli hafa færri íbúa en 1000 frá og með vori 2026. Það sé öllum fyrir bestu og í því felist efling byggðar og trygging fyrir sjálfbærni að mati ráðuneytisins.

engir nýir peningar

Bragi bendir á að þessi stefnumörkun muni hafa mikil áhrif á Vestfjörðum þar sem aðeins 2 sveitarfélög af 9 nái 1000 íbúa lágmarkinu, Ísafjarðarbær og Vesturbyggð. þá segir hann sveitarfélögin eigi sjálf að greiða kostnað við sameininguna þar sem ríkið hafi ekki sett neina fjármuni til þess. Má því skilja Braga að hann telji að framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til fámennari sveitarfélaga sem verða sameinuð með lögum við annað fjölmennara sveitarfélaga einfaldlega færist til milli þeirra.

Andstætt Evrópusáttmála

Þá segir Bragi í pistlinum:

„Þá mun ég líka fylgja sannfæringu minni og sýn sem ég hef á lög og landsrétt, enda þykir mér aðferðafræðin við þetta allt röng. Ekki síst í ljósi þess að um málaflokkinn allan gildir ákvæði Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Auk þess gilda um sveitarfélög og sjálfsstjórn þeirra evrópusáttmáli um sjálfsstjórn sveitarfélaga, en Ísland hefur innleitt hann og fullgilt og byggja gildandi sveitarstjórnarlög á þeim sáttmála og víða í hann vitnað. Þá byggir sjálfsstjórnarréttur sveitarfélaga á langri stjórnsýsluvenju og hefðhelgaðri stjórnskipan.

Ráðherra og alþingi telja sig vísast geta beytt lögum og þarmeð verði þetta allt saman löglegt á endanum. Um það er ég þó efins, enda er í öllum gildandi rétti vísað í evrópusáttmálann og hann gerir ráð fyrir því að íbúar viðkomandi sveitarélaga séu einir bærir um að taka ákvörðun um framtíðarskipan sína. Það hefur að sjálfsögðu ekki átt sér stað og erfitt að sjá fyrir sér hvernig að því verður staðið ef íbúar sveitarfélags fella sameiningaráform í héraði.“