Dynjandisheiði í umhverfismat

Vegagerðin hefur lagt fram frummatsskýrslu um nýjan veg yfir Dynjandisheiði frá Vatnsfirði yfir heiðina til Mjólkárvirkjunar svo og um nýjan veg frá frá Hvassnesi við mynni Fossfjarðar  í Arnarfirði að vestanverðu og að Vestfjarðavegi í Helluskarði.

Skipulagsstofnun hefur óskað eftir umsögnum um skýrsluna fyrir 26. janúar 2020.

Um er að ræða nýjan 33 – 40 km langan kafla Vestfjarðavegar (60) um Dynjandisheiði sem nær frá Hörgsnesi í Vatnsfirði langleiðina að Mjólkárvirkjun í Borgarfirði, sem og nýjan 29 km langan kafla Bíldudalsvegar (63) sem nær frá Bíldudalsflugvelli á Hvassnesi að
Vestfjarðavegi í Helluskarði á Dynjandisheiði.

Samtals eru núverandi vegir sem fyrirhugað er að endurnýja 69 km að lengd. Vegirnir sem fyrirhugað er að endurbyggja eru lagðir malarslitlagi og uppfylla ekki kröfur um umferðaröryggi. Á þeim eru samtals 15 einbreiðar brýr, krappar beygjur, brattar brekkur, hæðir og lægðir.

Markmið framkvæmdanna er að bæta samgöngur um Vestfirði með því að tryggja áreiðanlegar og öruggar samgöngur um Vestfjarðaveg og Bíldudalsveg. Nýir vegir verða með bundnu slitlagi og uppbyggðir með tilliti til snjóa. Hönnunarhraði veganna verður almennt miðaður við 90 km/klst. hámarkshraða.

Lögð er fram grunnveglína Vestfjarðavegar (60) milli Hörgsness sunnan Vatnsfjarðar og Mjólkár í Borgarfirði, veglína F. Veglína F þverar Vatnsfjörð en kemur á land skammt frá Flókalundi. Hún liggur eftir það í grennd við núverandi veg um Dynjandisheiði, Dynjandisvog og Borgarfjörð í Arnarfirði. Auk hennar eru lagðar fram átta veglínur sem víkja frá veglínu F, á köflum þar sem Vegagerðin telur tilefni til að skoða aðra möguleika á legu vegarins. Þær eru veglína F2, veglína F3, veglína A1, veglína A2,veglína A3, veglína B2, veglína D og veglína E.

Vegagerðin leggur fram grunnveglínu Bíldudalsvegar (63) milli Bíldudalsflugvallar og Vestfjarðavegar sem kallast veglína X. Auk hennar eru lagðar fram tvær veglínur sem víkja frá veglínu X, á köflum þar sem Vegagerðin telur tilefni til að skoða aðra möguleika á legu vegarins. Þær eru veglína Y og veglína Z.

Fyrirhugað er að skipta framkvæmdinni í þrjá áfanga. Áfangarnir eru eftirfarandi:
• Áfangi I, Vestfjarðavegur, Hörgsnes – Tröllaháls, veglínur A1, A2, A3, F, F2 og F3.
• Áfangi II, Vestfjarðavegur, Tröllaháls – Mjólkárvirkjun, veglínur F, B2, D og E.
• Áfangi III, Bíldudalsvegur, Bíldudalsflugvöllur – Vestfjarðavegur, veglínur X, Y og Z.

Gert er ráð fyrir að áfangi I, Hörgsnes – Tröllaháls í Vatnsfirði, yrði síðastur í framkvæmd, því á þeim kafla er Vestfjarðavegur að hluta til heilsársvegur með bundnu slitlagi. Á þeim hluta Vestfjarðavegar verður núverandi vegur um Flókalund nýttur nánast óbreyttur þar til ráðist yrði í framkvæmdir á leið sem sátt yrði um og uppfyllti markmið um bættar samgöngur.

Kostnaður við áfanga II er 4,9 milljarðar króna við allar útgáfur nema 2,7 km jarðgangakostinn. Sá valkostar 9,3 milljarða króna. Um þann kost segir í skýrslunni: „E leiðin er  besta leiðin því hún styttir leiðina mest og liggur í jarðgöngum á kafla með
mikilli snjósöfnun. Hún hefur einnig minnst neikvæð áhrif á umhverfið. Vegna mikils kostnaðar getur Vegagerðin þó ekki mælt með jarðgangaleiðinni.“

Áfangi III kostar um 4,5 milljarða króna og áfangi I kostar 1,5 – 2 milljarða króna.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!