Byggðastofnun: umsókn Vestfisks var best og trúverðugust

Byggðastofnun hefur sent frá sér rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun stjórnar að semja við Vestfisk ehf og fleiri fyrirtæki um afnot af sérstökum byggðakvóta til sex ára. Í greinargerðinni segir að var það hafi verið mat Byggðastofnunar að umsókn Vestfisks ehf. og samstarfsaðila væri best til þess fallin að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt með úthlutuninni og  að umsóknin væri trúverðugust og líklegust til að skila flestum heilsársstörfum í byggðarlaginu á Flateyri auk þess að efla vinnusóknarsvæðið í heild.

Þá segir að litið hafi verið  til traustrar rekstrarsögu umsækjenda og fyrirsvarsmanna þeirra og þá ekki síst reynslu af rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi á Vestfjörðum um árabil.

Alls bárust fimm umsóknir um aflamarkið. Umsókn West Seafood ehf. var vísað frá vegna gjaldþrots félagsins. Eftir matsferli innan Byggðastofnunar var tillaga um afgreiðslu fjögurra umsókna send Ísafjarðarbæ til umsagnar og ákvörðun var tekin á fundi stjórnar Byggðastofnunar þ. 17. desember 2019.

Vísað er í greinargerðinni til ákvæða reglugerðar frá 2016 þar sem segir að við mat umsókna verði byggt á:

„Trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi. Fjölda heilsársstarfa fyrir karla og konur sem skapast eða verður viðhaldið. Sem bestri nýtingu þeirra aflaheimilda sem fyrir eru í byggðarlaginu. Öflugri starfsemi til lengri tíma sem dregur sem mest úr óvissu um framtíðina. Jákvæðum áhrifum á atvinnulíf og samfélag. Traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjenda.“

Þá segir:

„Að umsóknarfresti liðnum var fundað með umsækjendum, bæði símleiðis og beint og þeim boðið að skýra umsóknir sínar nánar eftir því sem þeir óskuðu. Í ferlinu voru einnig kannaðir. möguleikar til samstarfs á milli umsækjenda og hvort til álita kæmi að skipta aflamarkinu á milli þeirra. Það skilaði ekki árangri. Stjórn Byggðastofnunar fjallaði um málið á tveimur fundum og tók ákvörðun á fundi sínum þann 17. desember s.l., að höfðu samráði við Ísafjarðarbæ eins og mælt er fyrir um í 6. gr. reglugerðarinnar. Byggðastofnun mat allar umsóknir út frá áðurnefndum mælikvörðum þar sem styrkleikar og veikleikar allra umsækjenda í hverjum þætti voru metnir sérstaklega og niðurstaða matsins réði tillögu til stjórnar stofnunarinnar.

Það var mat Byggðastofnunar að umsókn Vestfisks ehf. og samstarfsaðila væri best til þess fallin að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt með úthlutuninni. Sú umsókn væri trúverðugust og líklegust til að skila flestum heilsársstörfum í byggðarlaginu á Flateyri auk þess að efla vinnusóknarsvæðið í heild. Litið var til traustrar rekstrarsögu umsækjenda og fyrirsvarsmanna þeirra og þá ekki síst reynslu af rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi á Vestfjörðum um árabil.

Það var eindregin niðurstaða stjórnar Byggðastofnunar að ganga til samninga við samstarfsaðilana Vestfisk ehf. Fiskvinnsluna Íslandssögu ehf, Klofning ehf. og Aurora Seafood ehf. Það er mat Byggðastofnunar að þannig nýtist aflamarkið best og stuðli að mestri atvinnuuppbyggingu og stöðugleika á Flateyri og vinnusóknarsvæðinu í heild.

Vegna umræðu um hæfi er rétt að árétta að eignarhlutur Byggðastofnunar í eignarhaldsfélaginu Hvetjanda hf., sem aftur á hlut í einu af þeim fjórum fyrirtækjum sem stjórn Byggðastofnunar lagði til að samið yrði við, kemur ekki í veg fyrir að stofnunin taki þessa ákvörðun sem henni er falið að taka samkvæmt lögum. Hvetjandi er átthagafjárfestir og hefur þann tilgang skv. samþykktum félagsins að taka þátt í stofnun og starfsemi annarra félaga sem rekin eru á grundvelli arðsemissjónarmiða og/eða eru mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum. Hvetjandi greiðir ekki arð til hluthafa sinna og þeim fjármunum sem kunna að verða til í rekstri Hvetjanda er ráðstafað til verkefna á svæðinu í samræmi við tilgang félagsins. Sambærileg félög eru starfandi í öðrum landshlutum. Það er hlutverk Byggðastofnunar að stuðla að framgangi atvinnulífs á veikari svæðum þar sem skert aðgengi að lánsfé hefur hamlað rekstri. Þau tengsl sem vísað var til í umræðunni eiga að líkindum við um mikinn meirihluta þeirra sem koma að sjávarútvegi á svæðinu, m.a. um félög tengd öðrum umsækjendum um Aflamarkið á Flateyri og höfðu engin áhrif á þá ákvörðun sem hér hefur verið tekin. Hún er tekin af stjórn Byggðastofnunar að vandlega athuguðu máli og byggir á þeim forsendum og viðmiðum sem reglugerð nr. 643/2016 kveður á um.

Þá veldur það ekki vanhæfi Byggðastofnunar eða stjórnar hennar að starfsmaður stofnunarinnar sitji í stjórn sama eignarhaldsfélags. Þessi starfsmaður, lánasérfræðingur, veitti aðstoð við gagnaöflun en undirbúningur innan stofnunarinnar var í höndum annars lánasérfræðings, sem lagði málið fyrir Aflamarksnefnd Byggðastofnunar. Aflamarksnefnd Byggðastofnunar er skipuð forstjóra og forstöðumönnum en lánasérfræðingar eiga þar ekki sæti. Aflamarksnefndin gerir svo tillögu til stjórnar Byggðastofnunar sem tekur sjálfstæða ákvörðun að höfðu samráði við sveitarstjórn hlutaðeigandi sveitarfélags.“