Byggðakvóti og hagsmunir

Lokun Þórsbergs á Tálknafirði var mikil blóðtaka fyrir samfélagið á Tálknafirði, landaður afli í Tálknafjarðarhöfn helmingaðist milli fiskveiðiáranna 2014/2015 og 2015/2016 og á sama tíma fækkaði íbúum um 70 manns, eða um nærri fjórðung, það munar um minna. Úthlutaður byggðakvóti til sveitarfélagsins var til fiskveiðiársins 2015/2016 fullnýttur og öllum landað í Þórsberg en frá þeim tíma hefur allt að helmingur byggðakvótans fallið niður ónýttur, engum til gagns.

Byggðakvóti er verðmæti, kvóti hefur verð á leigumarkaði og ef miðað er við meðalverð sem Fiskistofa gefur upp var verðmæti byggðakvóta Tálknafjarðar fiskveiðiárið 2018/2019 tæpar 87 milljónir og var honum skipt á fjórar útgerðir í sveitarfélaginu, þar af eru bara tvær heilsársútgerðir. Um 30% af úthlutuðum byggðakvóta var hins vegar ekki nýttur, verðmæti rúmar 26 milljónir.

Tekjur hafnarinnar í formi aflagjalds af byggðkvóta 2018/2019 er 1.263.255,- hefði orðið hámark 1.809.784 ef allur byggðakvóti hefði veiðst. Vinnsluskylda hefur engin áhrif á þessar tekjur, löndun er alltaf bundin við Tálknafjarðarhöfn.

Landaður afli í Tálknafjarðarhöfn

Á fiskveiðiárinu 2005-2006 var landaður afli í Tálknafjarðarhöfn 2.871 tonn og íbúafjöldinn 325 sálir, alveg til fiskveiðiársins 2014-2015 hélst svipaður afli, frá 2.123 tonnum og upp í 3.517 tonn, íbúafjöldinn sveiflaðist á tímabilinu frá 325 íbúum og niður í 293.

Á fiskveiðiárinu 2015-2016 er hins vegar frystihúsinu lokað, aðal aflaskipinu skipt úr stóra kerfinu niður í það litla og kvóti seldur úr byggðalaginu.

Landaður afli minnkar um 50% frá því þegar hæst hóaði í lönduðum afla á tímabilinu 2005-2015. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa og varð fólksfækkun í þorpinu frá 01.01.2015 til 01.01.2017 um 23% eða 69 manns.

 

Síðastliðin tvö ár hefur orðið fjölgun aftur og þann 1.1.2019 var íbúafjöldinn í Tálknafjarðarhreppi 258, langur vegur er þó í að ná aftur fyrri styrk og reyndar aftur fækkun á árinu 2019.

Byggðakvóti

Við lokun fiskvinnslu og hrun útgerðar í sveitarfélaginu jókst til muna úthlutun byggðakvóta en styrkur útgerðar hrundi um leið og fiskvinnslan. Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu voru nánast aldrei eftirstöðvar af úthlutuðum byggðakvóta til 2016 en þá ber svo við að nær helmingur byggðakvótans er óveiddur og eftir það stendur rúmur  þriðjungur ónýttur hjá garði í lok hvers fiskveiðiárs.

Hafi tilgangurinn með byggðakvóta verið að styrkja atvinnu og byggð í sveitarfélaginu eftir það áfall sem lokun fiskvinnslunnar var þá liggur fyrir að það hefur ekki skilað miklum árangri.

Á síðustu 3 árum hefur ríkisvaldið afhent sveitarfélaginu til úthlutunar verðmæti að upphæð 169.094.200 kr. ef notað er meðalverð Fiskistofu á leigu aflamarks hvers árs. Á þessu tímabili eru aðeins fjórar útgerðir starfandi sem hægt er að segja að útvegi heilsársstörf (á mörkunum þó) og hafi einhver teljandi áhrif á atvinnustig sveitarfélagsins. Tvær útgerðir neita að undirgangast vinnsluskyldu, önnur landar í vinnslu í öðrum landsfjórðungi en hin á markað, eftir standa tvær útgerðir með fjóra menn á sjó ! sem landa í Tálknafjarðarhöfn til vinnslu á Patreksfirði.

Í þessari töflu er verðmæti byggðkvóta reiknað miðað við meðalverð á aflamarki samkvæmt Fiskistofu.

Eins og sjá má ofangreindri töflu fellur niður talsvert af verðmætum sem sveitarfélagið hefði svo sannarlega haft not fyrir í sína uppbyggingu.

Framsýn sveitarstjórn

Meirihluti sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps óskaði á síðasta fiskveiðiári eftir eftirfarandi breytingu á úthlutunarreglum byggðakvóta:

„Hvað varðar vinnsluskyldu viljum við gera þá tilraun að gefa hana eftir með því skilyrði að allir útgerðaraðilar sem sækja um og eiga rétt á byggðakvóta samþykki að leggja 20 kr. á kg. til verkefnis um uppbyggingu hjúkrunar- /dvalarheimilis á Tálknafirði. Samþykki útgerðarmenn ekki þessi frávik, helst vinnsluskylda sem fyrr.“

Þessi byltingarkenda tillaga meirihlutans vakti mikla athygli og var til umfjöllunar í vinnuhóp um endurskoðun reglna um byggðakvóta, enda öllum ljóst að hægt er að nýta byggðakvóta betur en gert er núna í sveitarfélögum þar sem sjávarútvegur hefur látið svo mikið undan sem raun ber vitni á Tálknafirði. Flateyri er einnig skólabókardæmi um hvernig breyttar reglur um byggðakvóta gætu nýst íbúum betur en þar er sértækur byggðakvóti unnin á Suðureyri. Ekki reyndi til fulls á vilja útgerða í Tálknafjarðarhreppi því lög og reglur um byggðakvóta leyfa ekki að byggðakvóti sé leigður út af sveitarfélagi og tillögu meirihluta sveitarstjórnar var því hafnað í ráðuneyti.

Í ljósi þess að styrkur útgerðar á Tálknafirði er svo lítill er eðlilegt að gengið verði enn lengra í þessa veru svo byggðastyrkurinn sem byggðkvóti hlýtur að eiga vera, gagnist öllum íbúum sveitarfélagsins betur og dreifist með sanngjarnari hætti.

Hér á Tálknafirði er að byggjast upp ný og sterk atvinnugrein sem útvegar fjölbreytt heilsársstörf en langvarandi varnarbarátta fjórðungsins allt frá upphafi kvótakerfis hefur orðið til þess að sárlega skortir viðhald á öllum innviðum. Innviðum sem stutt gætu nýja atvinnuuppbyggingu.

Það myndi því vera til mikilla bóta og myndi skila betri árangri ef sveitarfélagið gæti leigt frá sér byggðakvóta, að hluta eða öllu leyti og nýtt til fyrirfram skilgreindra verkefna.

Þar má til dæmis nefna:

  • Uppbygging, endurbætur og viðhald á hafnarsvæðinu sem á Tálknafirði er að breytast úr útgerðarhöfn í þjónustuhöfn fyrir fiskeldi en þarfnast mikils viðhalds.
  • Endurbætur á fráveitu í sveitarfélaginu en þar ríkir að mörgu leyti neyðarástand, fjármunir sem sveitarfélagið þarf að leggja í endurbætur á henni verða aðeins teknir af annarri uppbyggingu.
  • Bygging íbúða því mikil stöðnun hefur verið í byggingariðnaði á öllum Vestfjörðum um árabil, ný atvinnuuppbygging kallar á aukið íbúðarhúsnæði nema stefnan verði tekin til fortíðar með verbúðarstemmingu í stað fastbúandi íbúa sem taka þátt í uppbyggingu samfélagsins.
  • Uppbygging dvalarheimilis eða öryggisíbúða fyrir aldraða því fækkun íbúa í sveitarfélaginu felst líka í því að eldri borgarar þurfa að flytja af svæðinu þegar efri árin nálgast.
  • Frumkvöðla- og nýsköpunarsjóð sem hægt er að sækja í fyrir ný atvinnutækifæri eða menningarviðburði í sveitarfélaginu.

Viðsnúningur meirihluta sveitarstjórnar

Nú ber svo við að meirihluti sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps hefur tekið algjörlega nýja stefnu og tekið höndum saman við minnihluta sveitarstjórnar, samkvæmt bókun hennar á 551. fundi sínum samþykkir sveitarstjórn samhljóða að óska eftir að vinnsluskylda falli skilyrðislaust niður!

Bókunin er svohljóðandi:

„Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps gerir það að tillögu sinni við úthlutun byggðakvóta Tálknafjarðarhrepps fiskveiðiárið 2019-2020 að fallið verði frá vinnsluskyldu þess afla sem landað er sem byggðakvóta í Tálknafjarðarhöfn ásamt mótframlagi. Þar sem engin fiskvinnsla er rekin í Tálknafjarðarhreppi er heildarhagsmunum sveitarfélagsins talið betur borgið með því að falla frá vinnsluskyldu afla. Sveitarstjórn lítur svo á að mikilvægt sé að sem flestir fái tækifæri til að veiða byggðakvótann þar sem með því móti verða til fleiri störf í sveitarfélaginu auk þess sem einnig verða til fleiri afleidd störf sem styrkir byggð í Tálknafjarðarhreppi enn frekar. Sveitarstjórn telur mikilvægt að vernda þau störf sem fyrir eru á Tálknafirði ásamt því að auka möguleika á fjölgun starfa, hvort heldur beinna eða afleiddra starfa í kringum útgerð og þjónustu við hana.“

Augljóslega þarf meirihluti sveitarstjórnar að rökstyðja þessa gjörbreyttu afstöðu sína og hvernig „heildarhagsmunum sveitarfélagsins getur verið betur borgið“ með afnámi vinnsluskyldu og með hvaða móti verði til fleiri störf, bein eða óbein. Hvaða störf hefur sveitarstjórn í huga?

Hvað á sveitarstjórn við með þeim orðum sínum að „sem flestir fái tækifæri til að veiða byggðakvótann“?  Það liggur nokkuð ljóst fyrir í lögum og reglum hverjir eiga rétt á sækja um byggðakvóta og afnám vinnsluskyldu breytir engu þar um.

Sömuleiðis þarf sveitarstjórn að útskýra fyrir íbúum á Tálknafirði sem starfa hjá Odda á Patreksfirði, einu hvítfiskvinnslunnar á sunnanverðum Vestfjörðum hvers vegna þarf ekki að vernda þeirra störf, en samkvæmt opinberu íbúatali og upplýsingum frá Odda er um 7% íbúa Tálknafirði á aldrinum 20-67 starfsmenn Odda.

Það er alveg ljóst að afnám vinnsluskyldu hvorki fjölgar né fækkar þeim sem rétt eiga á byggðkvóta í Tálknafjarðarhreppi, afnám vinnsluskyldu þýðir einfaldlega að útgerðir mega selja hæstbjóðanda aflann og taka til sín allan arðinn af byggðakvótanum. Og gildir þá einu hvort atvinnuöryggi Tálknfirðinga sé stefnt í voða.

Bryndís Sigurðardóttir

 

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!