Bolungarvík: Barnagæsla í íþróttahúsi

Boðið verður upp á barnagæslu í Íþróttamiðstöðinni Árbæ í Bolungarvík frá og með 1. febrúar 2020.
Á virkum dögum verður barnagæsla fyrir börn 9 ára og yngri frá kl. 17:00-19:00 og á helgum frá kl. 10:00-12:00.

Þessari nýjung er ætlað að koma til móts við barnafólk og auðvelda foreldrum að nýta sér þjónustu Árbæjar til heilsueflingar.

Það er von bæjarins að þessari nýjung verði tekið vel af bæjarbúum og gestum íþróttahúsins.

Magnús Már Jakobsson er forstöðumaður Árbæjar: „Við viljum auðvitað standa okkur gagnvart okkar góðu gestum og viljum auka fjölbreytni í þjónustu íþróttamiðstöðvarinnar. Barnapössunin byrjar núna 1. febrúar og við bindum vonir við að henni verði vel tekið eins og reyndin var með nuddið.“

Þjónustan verður gjaldfrjáls þar til annað er ákveðið.