Bæjarráð Ísafjarðarbæjar: vill nýtt hættumat fyrir Flateyri

Frá íbúafundinum á Flateyri í gær. Mynd: Anna Jónína Guðmundsdóttir.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ákvað á fundi sínum í morgun að óskað verði eftir við stjórn Ofanflóðasjóðs að gert verði nýtt hættumat fyrir Flateyri og að gerð verði úttekt á möguleikum á endurbótum á varnargörðum ofan Flateyrar.

Hafnarmannvirki verði varin

Þá vill bæjarráðið að skipuð verði hættumatsnefnd fyrir öll hættumöt í Ísafjarðarbæ og þau endurskoðuð. Ennfremur að Ofanflóðasjóður taki þátt í að verja hafnarmannvirki á Flateyri fyrir snjóflóðum í ljósi mikilvægis mannvirkisins, bæði vegna öryggishlutverks hafnarinnar og að varnarmannvirkin beina snjóflóðum inn á svæðið og auki þar með áhættu þar.

Bæjarráðið vill að  Vegagerðin endurskoði sjóvarnir á Suðureyri og að gert verði öryggisáhættumat fyrir alla byggðarkjarna sveitarfélagsins í samráði við heimafólk og viðbragðsaðila þar sem mögulegar áhættur verði dregnar upp og viðbrögð við þeim kortlögð og skráð.

Vill þyrlupall á Ísafirði

Bæjarráðið vill að samgönguyfirvöld komi  upp upplýstum og upphituðum þyrlupalli á Ísafjarðarflugvelli og aðstöðu fyrir þyrlu á vellinum til að mögulegt sé að þyrla verði staðsett á svæðinu til að stytta viðbragðstíma. Einnig óskar bæjarráð eftir því að skoðaður verði möguleiki á því að þyrla sé staðsett á svæðinu þegar spáð er aftakaveðri eins og var í síðustu viku.

Bæjarráð færir öllum viðbragðs- og björgunaraðilum þakkir fyrir ómetanlegt starf og þakkar einnig sýndan samhug frá landsmönnum öllum. Sérstök ánægja er með þá fyrirhyggju Landhelgisgæslunnar að staðsetja varðskipið Þór á svæðinu gagngert til að bregðast við.

„Mikið starf er fyrir höndum að byggja upp atvinnulíf á Flateyri og bæjarráð væntir þess að fá stuðning frá stjórnvöldum í því verkefni. Til að mynda þarf að treysta Lýðskólann í sessi með föstum fjárframlögum auk þess sem nauðsynlegt er að byggja upp útgerð á ný á Flateyri“ segir í bókun bæjarráðs í morgun.

DEILA