Arnarlax metið á 40 milljarða króna

Verðmætið hlutabréfa í Arnarlax hf er metið á um 40 milljarða króna og hefur það tvöfaldast frá því að fyrirtækið var skráð í Kauphöllina í Olsó í nóvember 2019. Verðmætisaukningin á þessum tíma er um 20 milljarðar króna. Verð á hlut hefur hækkað úr 55 norskum krónum upp í 110 norskar krónur.  Morgunblaðið vakti athygli á þessu á laugardaginn.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax sagði í samtali við Bæjarins besta að helstu skýringar á þessari miklu hækkun væri þær helstar að eftir erfitt ár 2018 hefðu aðgerðir bætt rekstur fyrirtækisins og framlegð væri góð. Þannig hefði á 3. ársfjórðungi 2019 verið viðunandi framlegð þrátt fyrir að þá hefði heimsmarkaðsverð verið óvenjulega lágt. Þá væri útlit fyrir að heimsmarkaðsverð á eldislaxi héldist hátt næstu misseri þar sem vöxtur á framboði væri takmarkaður en eftirspurn sterk. Eldislax væri einfaldlega góð og eftirsótt vara til neyslu. Horfurnar væri góðar atvinnugreininni.

 

Kjartan sagði að athyglisvert væri að hluthöfum væri að fjölga og að fjárfestar sæju greinilega tækifæri til vaxtar hjá Arnarlaxi.

Framleiðsla Arnarlax nam 10 þúsund tonnum á síðasta ári. Fyrirtækið getur tvöfaldað framleiðsluna miðað við núverandi leyfi. Auk þess hefur Arnarlax sótt um framleiðsluleyfi í Ísafjarðardjúpi.

Bakkafrost í Færeyjum framleiðir um 70 þúsund tonn á ári af eldislaxi sem stendur undir 50% af öllum útflutningstekjum Færeyinga. Verðmæti fyrirtækisins er um 600 milljarðar íslenskra króna, sem er 15 sinnum meira en Arnarlax.

Metið burðarþol fyrir sjókvíaeldi á Vestfjörðum er um 80 þúsund tonn.

DEILA