Áhafnar Sæfarans minnst

Áhafnar Sæfarans var minnst laugardaginn 11. janúar við Minningaröldurnar í Fossvogi í Reykjavík. Um hundrað manns voru viðstödd athöfnina sem sr. Elínborg Sturludóttir, dómkirkjuprestur, leiddi. Hugi Hreiðarsson lagði krans að minnismerkinu um áhafnarmeðlimi Sæfarans og fánaberar voru Jens Hrómundur Valdimarsson og Svanur Kolbeinn Gunnarsson. Að athöfn lokinni var kaffisamsæti í Capital Inn í Fossvogi.

 

Sæfari BA 143 fórst 10. janúar 1970 út af Vestfjörðum og með honum sex ungir og efnilegir menn. Hreiðar Árnason frá Bíldudal, skipstjóri, 24 ára, lét eftir sig sambýliskonu og nýfæddan son, Björn Maron Jónsson frá Bíldudal, stýrimaður, 20 ára, Gunnar Einarsson frá Reykjavík, búsettur á Bíldudal, vélstjóri, 24 ára, lét eftir sig eiginkonu, Erlendur Magnússon frá Bíldudal, vélstjóri, 20 ára, Gunnar Sævar Gunnarsson frá Eyjarhólum í Mýrdal, matsveinn, nýorðinn 36 ára og Guðmundur Hrómundur Hjálmtýsson frá Bíldudal, háseti, 18 ára.

 

Sæfarinn var í eigu Hraðfrystihúss Tálknafjarðar hf. sem hafði fengið hann nýjan. Hann var 101 tonna stálskip smíðað í Brandenburg í Austur-Þýskalandi árið 1960.

 

Þetta sjóslys var áfall fyrir þjóðina. Bæði vegna þess hve ungir áhafnarmeðlimir Sæfara voru og vegna þess að þetta var áttunda skipið af Vestfjörðum sem fórst á sjö ára tímabili með þrjátíu og þremur mönnum.

 

Aðstandendur og vinir ákváðu að að hittast við Minningaröldurnar og minnast þess að fimmtíu ár eru liðin frá því að þessir hugrökku, ungu menn létu líf sitt og þakka fyrir störf leitaraðila og björgunarsveitafólks.

Mynd og frásögn: Helgi Hjálmtýsson.

DEILA