25 ár frá snjóflóðinu mannskæða í Súðavík

Í dag eru rétt 25 ár frá því að eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar féll á þorpið í Súðavík. Fjórtán manns létust. Flóðið féll á 18 íbúðarhús og 7 eignir sem hýstu stofnanir og fyrirtæki. Talið er að um 65 manns hafi verið með fasta búsetu í íbúðarhúsunum á áfallasvæðinu og 62 þeirra hafi verið heima.  Mikið óveður var þá á Vestfjörðum og landleiðin til Ísafjarðar var lokuð.  Björgunarlið, læknar, lögrelgumenn og sjáfboðaliðar voru fluttir sjóleiðina til Súðavíkur. Á fjórða hundrað björgunarsveitarmanna af Vestfjörðum og björgunarmenn úr 10 sveitum á SV horni landsins tóku þátt í aðgerðum í Súðavík. Snjóflóðið kom úr fjallinu ofan byggðarinnar, Súðavíkurfjalli. Talið er að 60.000 til 80.000 tonn af snjó hafi runnið niður hlíðina á 150 km. hraða (í 100 metra hæð y/s), en á 65 km. hraða þegar það skall efstu húsunum. Talið er að flóðið hafi verið 400 metrar að breidd.

Ákveðið var að færa byggina á öruggt svæði og reist nýtt þorp innar í firðinum. Átta hús voru flutt úr gömlu byggðinni í þá nýju og þar reist að auki 51 nýtt hús.

Í eldri byggðinni stóðu eftir 51 hús sem hafa verið nýtt á þeim tíma árs sem heimilt er að vera í þeim.

Opið verður í Súðavíkurkirkju til bænahalds eða kyrrðarstundar milli 16:00 og 20:00 í dag.

DEILA