Zontakonur gefa til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

Zontaklúbburinn Fjörgyn á Ísafirði færði Minningarsjóði Heilbrigðisstofnunar Vestjarða um Úlf Gunnarsson lækni, veglega peningaupphæð í gær. Upphæðin er eyrnamerkt til fjármögnunar á tæki eða búnaði fyrir fæðingadeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði.

 

Zonta eru alþjóðleg samtök kvenna, stofnuð árið 1919 með það fremst að leiðarljósi að efla stöðu kvenna og styrkja líknarmálefni. Zontahreyfingin á Íslandi veitir fjárstuðning í alþjóðleg verkefni, sérvalin verkefni á landsvísu sem og svæðisbundin. Það var því kærkomið að síðasta verk Zontaklúbbsins Fjörgynjar var að styrkja fæðingardeildina í heimabyggð en ákveðið hefur verið að klúbburinn taki sér hlé frá starfseminni.

Zontaklúbburinn Fjörgyn sem hefur starfað á norðanverðum Vestfjörðum í yfir tvo áratugi hefur styrkt margar ungar konur úr heimabyggð til náms eða starfa auk þess að koma að ýmsum alþjóðlegum verkefnum. Þá hefur klúbburinn einnig styrkt samtök og hjálparstörf í heimabyggð.

Stjórn Fjörgynjar ásamt fyrrum formanni klúbbsins voru viðstödd afhendinguna en það eru þær Una Þóra Magnúsdóttir formaður, Helga Þ. Magnúsdóttir gjaldkeri, Thelma Hjaltadóttir ritari og Áslaug Jóhanna Jensdóttir stallari ásamt Barböru Gunnlaugsson sem sinnti formennsku á árum áður og verið klúbbfélagi í árafjöld. Fyrir hönd Heilbrigðisstofnunarinnar veittu þau Gylfi Ólafsson forstjóri, Hörður Högnason Framkvæmdastjóri hjúkrunar  og Erla Rún Sigurjónsdóttir ljósmóðir, gjöfinni viðtöku.

Jóhanna Hafsteinsdóttir varaformaður klúbbsins gat ekki verið viðstödd.