Yfirlit Orkubús Vestfjarða á hádegi

Staðan á Vestfjörðum kl. 12:00 11.12.2019
Ekki fæst rafmagn frá byggðalínunni vegna þess að ekki er hægt að spennusetja tengivirkið í Hrútatungu. Orsökin er sennilega snjór og selta í tengivirkinu en unnið hefur verið að hreinsun á virkinu síðan í morgun. Ekki er hægt að segja til um hvenær hægt verðu að spennusetja tengivirkið og þar með Vesturlínu.
Norðanverðir Vestfirðir:
Allir notendur eru með rafmagn frá varastöðinni í Bolungarvík nema hluti Önundarfjarðar en þar er bilun á sveitalínu. Viðgerðaflokkur er kominn á staðinn og unnið er að viðgerð.
Einnig er rafmagnslaust í Staðardal í Súgandafirði og er viðgerðarflokkur á leiðinni.
Ísafjarðardjúp:
Rafstöð í Reykjanesi ásamt vatnsaflsvirkjunum heldur uppi rafmagni í Djúpinu að Langadal og austanverðum Ísafirði undanskildum.
Hólmavík, Strandir, Reykhólasveit og nágrenni:
Bilun er á Drangsneslínu og er varaafl keyrt fyrir þéttbýlið á Drangsnesi. Díselvél á Hólmavík og Þverárvirkjun halda rafmagni á Hólmavík og nágrenni og suður að Stórafjarðarhorni. Nokkrir bæir í Steingrímsfirði eru án rafmagns. Rafmagnslaust er frá Broddanesi suður að Hrútatungu. Rafmagnslaust er í Árneshreppi.
Vinnuflokkar frá Hólmavík eru að leggja af stað í bilanaleit á Hólmavíkurlínu, Drangsneslínu og í Steingrímsfirði.
Rafstöð er keyrð á Reykhólum fyrir þéttbýlið og sveitina að Geiradal en skammta þarf rafmagn þar.
Sunnanverðir Vestfirðir og Dýrafjörður:
Allir notendur eru með rafmagn frá Mjólkárvirkjun fyrir utan Rauðasandslínu. Þar var að koma inn tilkynning um bilun á Hænuvíkurhálsi og í Kollsvík og er bilanaleit hafin.

DEILA