Vesturbyggð: aflagjald af eldisfiski sambærilegt við frystar afurðir

DCIM100MEDIADJI_0042.JPG

Vesturbyggð hefur frá árinu 2014 innheimt aflagjöld af eldisfisk og var það 0,70% af heildarverðmæti aflans skv. 17. gr. laga nr. 61/2003 um hafnagjöld.  Þar er kveðið á um aflagjald af sjávarafurðum. Skal það vera skal það vera minnst 1,25% og mest 3% af heildaraflaverðmæti. Þó getur gjaldið verið lægra fyrir frystar sjávarafurðir og skal gjaldið vera minnst 0,70%.

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að með gjaldskrá frá 2015 hafi aflagjaldið verið lækkað í 0,60%, en þeirri lækkun var ætlað að vera tímabundin þar til endurskoðun 17. gr. hafnalaga nr. 61/2003, vegna fiskeldis yrði lokið, en almennt aflagjald í höfnum Vesturbyggðar er 1,60% af heildarverðmæti afla.

„Afsláttur af aflagjaldi af eldisfisk er veittur á sambærilegum grunni og gjaldtaka af frystum afla frystitogara, en af heildarverðmæti þess afla reiknast 0,80% af heildarverðmæti aflans. Þá er einnig litið til þess mikla magns eldisfisks sem kemur að landi sem og eðli aflans sem um ræði. Þannig er tekið tillit til þess að tímafrekur og kostnaðarsamur framleiðsluferill hefur átt sér stað áður en eldisfisk er landað til slátrunar og vinnslu.“

Endurskoðun á 17. gr. hafnalaga nr. 61/2003 hefur ekki farið fram, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir af hálfu sveitarfélagsins um endurskoðun laganna, nú síðast í október 2019 og hefur afslátturinn haldist óbreyttur frá árinu 2015 segir Rebekka.

„Hafnasjóður Vesturbyggðar stendur frammi fyrir miklum og kostnaðarsömum framkvæmdum í höfnum Vesturbyggðar á næstu árum m.a. vegna aukinna umsvifa í fiskeldi. Til að standa undir auknum útgjöldum næstu árin lagði hafna- og atvinnumálaráð Vesturbyggðar til að aflagjald af eldisfisk yrði hækkað úr 0,60% í 0,70% á árinu 2020. Vesturbyggð telur mikilvægt að gætt sé sanngirni við gjaldtöku og að gott samstarf sé á milli sveitarfélagsins og fyrirtækja í fiskeldi við uppbyggingu í sveitarfélaginu til næstu ára.“

 

DEILA