Vesturbyggð: 25% hagnaður af rekstri hafnanna

Heildartekjur hafnarsjóðs Vesturbyggðar hækka umtalsvert á milli ára og eru áætlaðar 199 milljón króna en gjöld að meðtöldum fjármagnsgjöldum eru áætluð 150 milljón króna. Rekstur hafnarsjóðs er því áætlaður jákvæður upp á 49 milljónir króna á árinu 2020, sem er nærri 25% af tekjum. verður þetta að teljast góð afkoma.

Fiskeldi eykur tekjurnar

Í greinargerð með fjárhagsáætluninni segir að betri afkomu hafnarsjóðs megi rekja til aukinna umsvifa í fiskeldi, aukningu á komu skemmtiferðaskipa til Patreksfjarðar og strandsiglinga Samskipa til Bíldudalshafnar.  Þá hefur fjölgað nokkuð þeim sem stunda strandveiðar á sumrin og landa í Patrekshöfn.

Gert er ráð fyrir að almenn verðlagshækkun á gjaldskrá hafnarsjóðs verði 2,5%. Frumvarpið gerir þó ráð fyrir því að einstakir liðir gjaldskrárinnar hækki umfram almenna verðlagshækkun. Þá eru gerðar tilteknar breytingar vegna aflagjalda,  en aflagjald af
eldisfisk hækkar milli ára úr 0,6% í 0,7% af heildarverðmæti aflans.

Um mitt ár 2019 tók nýr hafnarstjóri til starfa í 50% starfi vegna aukinna umsvifa á höfnum í Vesturbyggð. Seinni parts ársins 2019 hefur verið unnið að því að bæta umhverfi og umgengi á hafnarsvæðum. Unnið hefur verið að því að skipuleggja og skilgreina gámasvæði við Patrekshöfn.

Straumnes rifið

Á árinu 2020 er gert ráð fyrir 2 milljón króna framlagi við undirbúning framkvæmda við niðurrif Kaldbakshúss (Straumnes). Í greinargerðinni segir að margir „hlutar hússins halda hvorki vatni né vindi og því verður á árinu unnið að undirbúningi þess að rífa húsið, sem því miður er ekki lengur það bæjarprýði sem það var í upphafi og verður í kjölfarið lóð þess fundið nýtt hlutverk tengt hafsækinni atvinnustarfsemi á Patreksfirði.“

DEILA