Vestfirðir: Helmingssamdráttur í stangveiði

Laugardalsá.

Stangveiði í vestfirskum ám varð í sumar minna en helmingur þess sem hún var árinu áður. Þetta kemur fram í bráðabirgðayfirliti fyrir stangveiðina 2019 frá Hafrannsóknarstofnun. Árið 2018 veiddust 958 laxar á Vestfjörðum. Sleppt var 206 löxum og 752 löxum var landað. Samtals varð aflinn 2 tonn. Á þessu ári varð veiðin minni en 500 laxar samkvæmt braðabirgðayfirlitinu, en nákvæm tala er ekki birt. Hefur veiðin ekki verið minni síðan 1989.

Engin vestfirsk á er á yfirliti frá Landssambandi Veiðifélaga yfir 75 aflamestu laxveiðiárnar 2019 og engar upplýsingar eru gefnar um veiði í ánum þremur í ísafjarðardjúpi, Laugardalsá, Langadalsá og Hvannadalsá.

Viðskiptablaðið birtir frétt á vef sínum um laxveiði sumarsins og þar kemur fram að veiðin í Langadalsá hafi verið 38 laxar á stöng og í Laugardalsá hafi veiðin verið 24 laxar á stöng. Er veiðin 2019 sú minnsta frá 2012 samkvæmt yfirliti blaðsins. Í Langadalsá eru leyfðar 4 stangir og mest 3 stangir í Laugardalsá.

Miðað við þessar upplýsingar má áætla laxveiði sumarsins í þessum tveimur ám liðlega 200 laxar. Ekki hefur tekist að afla nánari upplýsinga laxveiði sumarsins í Djúpinu.

Mynd: Hafrannsóknarstofnun.

DEILA