Veiðileysuháls færður framar

Veiðileysuháls. Mynd: Jón Halldórsson.

Í samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2034, sem var lögð fram á Alþingi á laugardaginn, hefur verið gerð sú breyting frá drögum í október, að 300 milljóna króna fjárveiting til nýs 12 km vegar yfir Veiðileysuháls færist til 2020-2024 og 450 milljónir króna eru á næsta tímbili 2025-2029. Áður var öll fjárveitingin 750 milljónir króna sett á 2025-2029.

Þetta þýðir væntanlega að framkvæmdir munu hefjast fyrr en áður var áformað. En hins vegar segir í áætluninni að „fjárveitingar ætlaðar Strandavegi eru til endurgerðar á veginum um Veiðileysuháls á 2. tímabili áætlunarinnar.“

Skýra þarf þetta misræmi sem er milli tímasetningar á fjárveitingum og skýringartextans.

Aðrar fjárveitingar til verkefna á Vestfjörðum eru að því best verður séð óbreyttar frá drögunum sem kynnt voru í október. Innstarndarvegur í Strandasýslu 4 km kafli verður unninn á 2. tímabili 2025-2029 og kostar 300 mkr. svo og Bíldudalsvegur 30 km vegur frá Dynjandisheiði að Bíldudal sem varið verður 4.800 milljónum króna til. Um Hattardal í Álftafirði er 350 mkr fjárveiting 2020-24 til 2 mk vegar.

Stóru framkvæmdirnar næstu árin 2020- 2024 verða vegur um Gufudalssveit 26 km sem kostar 7.200 mkr og 35 km vegur yfir Dynjandisheiði fyrir 5.800 mkr.

DEILA