Varaafl keyrt á Drangsnesi og á norðanverðum Vestfjörðum

Drangsneslína sló út fyrir skömmu og þar hefur verið gripið til varaaflsins og díselvél framleiðir rafmagn. Kl 15:00 fór rafmagn af Hrútafirði, Bitrufirði og Broddanesi unnið er að viðgerð.  Varaaflið í Bolungavík er nýtt sem kostur er.

Rarik Akureyri er að senda menn frá Hvammstanga í Hrútatungu og vonast er til að þá komi rafmagn á Borðeyrarlínu og Borðeyri alla leið að Broddanesi.

Útleysingu varð á Geiradals- og Mjólkárlínu kl. 14:59 en þetta eru flutningslínur í eigu Landsnets. Allir notendur eru komnir með rafmagn aftur.

Mjólkárlína sló út í dag en hún er komin inn aftur.  Sama má segja um Geiradalslínu og Breiðadalslínu að þar hefur orðið útleysing og línurnar aftur spennusettar.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri sagði að Bæjarins besta áðan að mjög vont veður væri á Ströndum, mun verra en á norðanverðum Vestfjörðum. Hann vildi ekkert segja fyrir um framhaldið og sagði að fæst orð hefðu minnsta ábyrgð.

Nú kl 17 sendi Orkubúið frá sér tilkynningu um truflanir í Djúpinu, ekki er vitað um ástæður.