Tíu mest lesnu fréttirnar 2019

Í byrjun ársins birtist frétt á bb.is þar sem fram kom að Pétur Markan sveitarstjóri í Súðavík hefði sagt upp störfum. Það reyndist mest lesna fréttin á árinu.

Önnur mest lesna fréttin var í júlí og var um nýjar reglur um umferð og dvöl í Hornstrandafriðlandinu og viðbrögð Hafsteins Ingólfssonar, sem sagðist felmtri sleginn. Í fjórða sæti var frétt  af sama tilefni, en Vilmundur Reimarsson tilkynnti að hann hefði ákveðið að hætta ferðaþjónustu í Bolungavík eftir að hafa kynnt sér nýju reglurnar.

Á milli þeirrar frétta var þriðja mest lesna fréttin á árinu, líka frá júlí, en þar upplýsti Bæjarins besta að fyrrverandi aðstoðarmaður Umhverfisráðherra, Sif Konráðsdóttir lögfræðingur hefði látið gera uppdrátt sem sýndi land eyðijarðarinnar Drangavíkur mun stærra en áður hafði verið talið og með þann uppdrátt að vopni voru áform um virkjun Hvalár kærð til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Kæran er þar enn til meðferðar.

Í 5. sæti er frétt í júlí um bann Minjastofnunar við noktun ærslabelgs á Ísafirði. Í október birtist frétt um óvænt andlát skólastjóra tónlistarskóla Vesturbyggðar og varð hún sjötta mest lesna frétt ársins.

Í sjöunda særi var svo frétt frá byrjun júní um tunnulest í Bolungavík sem lögreglan á Vestfjörðum stöðvaði af öryggisástæðum.

Í janúar vakti eftirtekt frétt um athafnamanninn G. Hans Þórðarson sem fjárfesti í því að breyta atvinnuhúsnæði í Bolungavík í íbúðir og leigir þær út. Sú frétt endaði sem áttunda mest lesna frétt ársins.

Í níunda sæti var frétt frá byrjun ársins um fund Vegagerðarinnar sem haldinn var  á Reykhólum og til kynningar um Teigskógleiðina.

Tíunda mest lesna fréttin var svo frásögn af björgun áhafnarinnar á Einari Guðnasyni ÍS sem strandaði við Gölt í nóvember og viðtal við flugstjórann, Bolvíkinginn Jens Sigurðsson.

Ekki liggur fyrir hver margar fréttir birtust á vefnum á árinu en þær hafa verið um 2000.

DEILA