Teigsskógur: stefnt að því að bjóða út fyrir vorið

Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni segir stefnt að því að bjóða út eins mikið og hægt er fyrir vorið af nýja veginum um Gufudalssveit.

Vegagerðin hefur sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar Reykhólahrepps og stefnt er að því að afgreiða erindið fljótlega eftir áramót.

Magnús Valur segir að næst á dagskránni sé að ná samningum við landeigendur og unnið sé að því. Eigendur að tveimur jörðum, Gröf og Hallsteinsnesi höfðu hafnað viðræðum við Vegagerðina meðan framkvæmdaleyfi lægi ekki fyrir, en viðræður eru í gangi við aðra landeigendur sem ósamið er við.

Takist ekki samningar getur Vegagerðin óskað eftir eignarnámsheimild. Magnús Valur segir að ekki liggi fyrir á þessari stundu hvernig staðið verði að útboðinu í vor, það ráðist af stöðu mála við landeigendur. Til greina kemur að bjóða verkið út í áföngum.

Þá er annar þáttur sem getur haft áhrif á framvindu verksins og það eru kærur vegna framkvæmdaleyfisveitingarinnar. verði framkvæmdaleyfið kært til úrskurðarnefndar um auðlinda- og umhverfismál tekur það sinn tíma og hefur áhrif á ákvarðanir þar sem alltaf er möguleiki á því að úrskurðarnefndin felli leyfið úr gildi.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!