Skemmtiferðaskip: lögð til hönnunarsamkeppni fyrir hafnarsvæðið á Ísafirði

Starfshópur um framtíðaskipan komu skemmtiferðaskipa hefur skilað af sér ýtarlegri skýrslu. Hópurinn var skipaður í apríl 2017. Hlutverk starfsfhópsins var að móta tillögu að stefnu og framtíðarsýn Ísafjarðarbæjar um þjónustu við skip og hafnsækna starfsemi, þar sem sérstök áherla væri lögð á stefnumótun varðandi komu skemmtiferðaskipa til Ísafjarðarbæjar og samspil þeirra við aðra starfsemi hafnarinnar og þjónustu í sveitarfélaginu. Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, formaður starfshópsins kynnti efni skýrslunnar fyrir bæjarráði í gær.

Í niðurstöðu starfshópsins segir að þjónusta vegna skemmtiferðaskipa sé mikilvægur hluti af atvinnulífi Ísafjarðarbæjar sem þurfi að þróa á sjálfbæran hátt og taka tillit til umhverfis, samfélags og skapa verðmæti íbúum til hagsbóta.

Hönnunarsamkeppni fyrir hafnarsvæðið

Styrkleikar Ísafjarðarbæjar í móttöku skemmtiferðaskipa og farþega þeirra liggja ekki síst í ánægju gesta og fjölbreytni afþreyingar sem dreifist um stórt svæði.  Tækifærin í móttöku skemmtiferðaskipa felast í því að nýta þessa sérstöðu enn frekar í vöruþróun á afþreyingu og þjónustu.

Veikleikar felast ekki síst í öryggismálum farþega á hafnarsvæði og veikum innviðum sem þarf að styrkja til að geta tekið á þeim ógnunum sem starfshópurinn greindi. Þar má helst nefna mengun af völdum skipa og möguleg óhöpp eða slys á sjó eða landi. Starfshópurinn leggur til að skipulag alls hafnarsvæðis taki mið af fjölþættri starfsemi svæðisins, með öryggi starfsfólks og gesta að leiðarljósi og að farið verði í hönnunarsamkeppni fyrir hafnarsvæðið.

Þá segir í skýrslunni að  „bætt net göngu-, hjóla-, og hlaupastíga, uppbygging og styrking safna, áningastaða og útsýnisstaða gagnast bæði íbúum og skipafarþegum. Þá þarf að leggja áherslu á bætt öryggi gesta á hafnarsvæði og í skoðunarferðum um svæðið.“

Skoðanakönnun meðal íbúa
Starfshópur um skemmtiferðaskip gerði viðhorfskönnun meðal íbúa Ísafjarðarbæjar í september 2017.

Í niðurstöðum kom fram að um 40% svarenda telja að farþegar skemmtiferðaskipa hafi góð áhrif á bæjarlífið, 35% telja svo ekki vera og 25% telja farþega skipa hvorki hafa góð eða slæm áhrif. Tæplega 60% svarenda telja farþega skemmtiferðaskipa skapa tekjur fyrir Ísafjarðarbæ, rúmlega 50% telja komur skemmtiferðaskipa auka fjölbreytni í atvinnulífi svæðisins og tæp 70% eru ósammála fullyrðingu um að það myndi engu breyta fyrir Ísafjarðarbæ þó skemmtiferðaskip hættu að koma.

Meirihluti er á því að haust, vetur og vor séu frekar eða alltof fáir ferðamenn í bænum en rúm 70% telja frekar marga eða alltof marga ferðamenn vera í bænum yfir hásumartímann en tæp 23% telja að þá séu ferðamenn hæfilega margir.

DEILA