Reykhólar: óásættanlegt raforkuleysi

Sveitarstjórn Reykhólahrepps segir í ályktun sem samþykkt var fyrir helgi að hún líti atburði síðustu daga alvarlegum augum og að óásættanlegt sé að grunnstofnanir hafi ekki verið betur undirbúin fyrir vond veður. Skortur var  á eldsneyti til að keyra varaaflstöðvar, nýja rafstöðin  virkaði ekki og sú gamla bilaði. Sveitarstjórnin hefur skipað nefnd til þess að endurskoða reglur um viðbúnað sveitarfélagsins.

Ályktunin í heild:

„Sveitarstjórn Reykhólahrepps lítur atburði síðustu sólarhringa alvarlegum augum.
Ljóst er að helstu opinberu innviðir ríkisins brugðust. Starfsfólk og sjálfboðaliðar sem
stóðu vaktina nótt sem dag hafa unnið þrekvirki á undanförnum sólarhringum með
almannahagsmuni að leiðarljósi. Það er óásættanlegt að grunnstofnanir eins og
Orkubú Vestfjarða, Landsnet og fjarskiptafyrirtæki hafi ekki verið betur undirbúin en
þetta þrátt fyrir aftaka veðurspá. Ekki var nægilegt eldsneyti á staðnum til að keyra
varaaflsvélar. Nýja rafstöðin virkar ekki og sú gamla bilaði þegar á reyndi.
Raforkukerfið og rofar voru í ólagi. Varaafl í GSM mastri dugaði ekki í nema örfáar
klukkustundir. Einnig er óásættanlegt að tengivirkið í Hrútatungu hafi verið ómannað
og að TETRA-kerfið hafi dottið út um tíma.
Sveitarstjórn hefur ákveðið að skipa starfshóp um endurskoðun á reglum um
viðbúnað sveitarfélagsins vegna hættuástands. Starfshópinn skipi allir núverandi
nefndarmenn og varamenn brunamála og almannverndarnefndar ásamt
sveitarstjóra. Starfshópnum er ætlað að fara yfir og endurskoða viðbragðsáætlun
sveitarfélagsins vegna hvers kyns hættuástands sem getur skapast. Með
starfshópnum starfa allir forstöðumenn sveitarfélagsins ásamt því að hann hefur
heimild til að kalla til aðra starfsmenn. Þá skal starfshópurinn hafa samráð við aðra
viðbragðsaðila s.s björgunarsveit, lögreglu, Orkubúið, Landsnet, fjarskiptafélög og
Vegagerð ásamt öðrum þeim er málið varðar. Nefndin skili af sér til sveitarstjórnar
eigi síðar en 25.mars 2020.“

DEILA