Orkumálastjóri: framlag Íslendinga í loftslagsmálum liggur helst í útlöndum

Súgfirðingurinn Guðni Jóhannesson, Orkumálastjóri sagði í jólaerindi sínu í Orkustofnun að framlag Íslendinga lægi fyrst og fremst í því að vinna að minnkun losunar og bindingar kolefnis erlendis en ekki endilega mest innan eigin landamæra.

Guðni bendir á að það skiptir litlu máli hversu mikið við Íslendingar losum af kolefni. Árangur þurfi hins vegar að nást erlendis með samdrætti í losun kolefnis. Það sé staðan á heimsvísu sem skiptir máli.

Orkumálastjóri vitnaði til   kaupauðgistefnunnar sem ríki heimsins aðhylltust á 18. öldinni sem  fólst í því að auðgast með því að setja út afurðir en flytja ekkert inn. Gerði hann hálfpartinn gys að málflutningi í loftslagsmálum sem minnti á þesssa hagfræði átjándu aldarinnar.

„Nú virðist þessi stefna þó í æ meira mæli vera að ryðja sér rúms í alþjóðaviðskiptum og í samskiptum þjóða. Þetta hefur leitt til einhvers konar einangrunarhyggju þar sem lönd reyna að auka útflutning sinn en draga úr viðskiptum við þá sem ætla sér að gera sambærileg viðskipti í hina áttina. Það ber svolítinn keim af þessu þegar þjóðir einhenda sér í að draga úr losun kolefniskvóta innan sinna landamæra til þess að geta uppfyllt hin þjóðlegu markmið, en láta sig minna varða hvaða áhrif þær aðgerðir sem gripið er til hafa á losun á heimsvísu.“

Guðni nefndi dæmi um framlag sem Íslendingar gæti  innt af hendi erelndis og myndu hafa verulega þýðingu til þess að draga úr loftslagsvandanum á heimsvísu.

„Reynsla okkar af nýtingu jarðvarma til húshitunar og síðar meir af jarðvarmavirkjunum til raforkunýtingar er miklvægur þekkingarforði sem hefur nýst vel til þess að koma af stað jarðhitavæðingu í hinum kaldari hluta Kínaveldis og Austur-Evrópu og jarðhitavirkjunum á Filipseyjum, í Indónesíu, Kenýja og Mið-Ameríku sem samanlagt eru að skila margfalt meiri vistvænni orku til heimsbyggðarinnar en þeirri sem okkar eigin framleiðsla gefur.“

Nefndi Guðni sérstaklega Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna sem rekinn er hér á landi og þar sem íslendingar flytja út þekkingu  á þessu sviði.

„Í öðrum löndum eru slíkir öflugir vaxtarsprotar atvinnulífsins, sem falla vel að markmiðum um sjálfbæra samfélagsþróun á heimsvísu, í hávegum hafðir og sérstök rækt lögð við að halda við öflugum heimamarkaði og stutt við rannsóknir og innlenda þróun.“

Svo sendi orkumálastjóri Auðlinda- og umhverfisráðherra eitraða pillu:

„Hér er okkar eigið auðlindaráðuneyti í annarri vegferð.

Öll starfsemi þar virðist mér ganga út á að reisa margfaldar gaddavírsgirðingar í kringum framtíðarkosti okkar til virkjunar jarðhita og vatnsfalla og koma jafnvel í veg fyrir áframhaldandi rannsóknir á auðlindunum. Allt er þetta gert undir sakleysislegum og auðseljanlegum formerkjum, eins og stofnun hálendisþjóðgarðs og og friðlýsingar náttúrusvæða, en hins vegar vandlega sneitt hjá því að meta áhrif þessa á orkuöryggi, atvinnulíf, hagvaxtarmöguleika okkar til lengri tíma, framlag okkar til loftslagsvænnar raforkuvinnslu og svona mætti lengi telja.“

Jólaerindið má finna í heild sinni  undir aðsendar greinar.