Nýtt námsframboð á Íslandi fyrir starfsmenn sem vinna við fiskeldi

Frá Bíldudal, en námskeiðið fór þar fram.

Fisktækniskóli Íslands í samstarfi við Arnarlax og Artic Fish hafa sett af stað nám í fisktækni með áherslu á fiskeldi. Um 28 starfsmenn frá Arnalax og Arctic Fish hófu námið þann 24 nóvember síðastliðinn og verður kennt á Bíldudal og á öðrum starfsstöðvum á Vestfjörðum, einnig verður notast við fjarfunda kennslubúnað frá starfstöð Fisktækniskólans frá Grindavík. Áætlað er að náminu ljúki í byrjun desember á næsta ári.

Markmiðið með náminu er að auka við sérþekkingu starfsfólks á þáttum sem öll fyrirtæki í fiskeldi eru að vinna að. Til þess að ná því fram verður farið í líffærafræði fiska, markmið ræktunar í fiskeldi, vatns og umhverfisfræði, sjúkdóma og heilbrigði fiska, fóðrun fiska og næringarfræði, gæðastjórnun, tæknimál í rekstri skoðuð og farið vel yfir öryggismál.

Kennsluefni er unnið af Fisktækniskóla Íslands í samstarfi við Guri Kunna og Froyja Vgs í Þrándheimi, Strand Vgs í Stavanger og Háskólann að Hólum, en skólarnir í Noregi munu einnig leggja til námsefni og sérþekkingu á einstaka sviðum.

Fisktækniskóli Íslands, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Háskólinn að Hólum eru, ásamt Norðmönnum og Skotum  þátttakendur í  tveimur þriggja ára samstarfsverkefnum á sviði fiskeldis (BlueEdu og BlueMentor).  Markmið verkefnanna er m.a., að vinna að samræmingu náms og kennslu almenns starfsfólks í greininni og mun þetta verkefni, sem Fisktækniskólinn og Arnarlax og Artic Fish setja á laggirnar nú í haust njóta góðs af því samstarfi.

Námið stendur sem sjálfstætt námsframboð, en gengur jafnframt að fullu til eininga og samsvarar þá einnar annar námi á námsbraut Fisktækniskóla Íslands í Fisktækni með sérstaka áherslu á fiskeldi.

Háskólinn á Hólum býður upp á nám í fiskeldisfræði á háskólastigi en til þess að leggja stund á það þurfa nemendur fyrst að hafa lokið framhaldsskólaprófi. Nám í fiskeldi hjá Fisktækniskólanum gæti því nýst þeim starfsmönnum Arnarlax og Artic Fish sem hyggjast síðar fara í framhaldsnám á Hólum í fiskeldisfræði.

Myndir: Ásdís V. Pálsdóttir.

DEILA