Nýr bátur í stað Einars Guðnasonar ÍS

Norðureyri ehf á Suðureyri hefur gert samning við Trefjar ehf um smíði á nýjum Cleopatra 40B beitningarvélarbáti. Báturinn mun leysa af hólmi Einar Guðnason ÍS, sem strandaði fyrir skömmu og eyðilagðist.

Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu sagði í samtali við Bæjarins besta að gert væri ráð fyrir að nýi báturinn kæmi fyrir lok næsta árs. Hann er svipaður og Einar Guðnason ÍS en heldur stærri. Kaupverð á svona bát mun vera 250 – 300 milljónir króna.

Norðureyri ehf keypti í síðasta mánuði Von GK 15 tonna krókaaflamarksbát, sem er smíðaður árið 2008 og búinn beitningavél. Óðinn sagði að ekki væri afráðið hvað yrði um hann þegar nýi báturinn kæmi.

 

Athugasemdir

athugasemdir