Ný lög um sviðslistir

Listdans. Mynd: Jónatan Grétarsson.

Alþingi samþykkti á þriðjudaginn  ný lög um sviðslistir en með þeirri löggjöf er leitast við að skapa sambærilegan lagaramma um sviðslistir eins og fyrir bókmenntir, myndlist og tónlist, sem gefist hefur vel.

„Ég fagna nýjum lögum um sviðslistir og tel þau mikið heillaskref. Lögin eru til þess fallin að efla menningarlíf okkar og stuðla að aukinni fagmennsku en sviðslistir eru í miklum vexti.  Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem komu að þessari mikilvægu vinnu og veittu gagnlegar umsagnir,” sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Meðal helstu nýmæla í lögunum er að í fyrsta sinn er lögfest ákvæði um Íslenska dansflokkinn, en hann hefur starfað síðan 1972. Þá er ákvæðum um þjóðleikhússtjóra og listdansstjóra breytt þannig að ríkari kröfur eru gerðar um menntun þeirra auk þess sem mælt er fyrir um skipunartíma og mögulega endurskipun. Ákvæði um þjóðleikhúsráð er breytt þannig að fagfélög sviðslistafólks innan Sviðslistasambands Íslands tilnefna þrjá fulltrúa í þjóðleikhúsráð en tveir fulltrúar verði skipaðir án tilnefningar.

Þá er ákvæði um aðra sviðslistastarfsemi, sviðslistaráð og sviðslistasjóð. Sviðslistaráð úthlutar úr sviðslistasjóði sem skiptist í tvær deildir, deild atvinnuhópa og deild áhugahópa í sviðslistum. Þá skal ráðherra setja á fót kynningarmiðstöð sviðslista til að annast kynningarmál á íslenskum sviðslistum hér á landi og erlendis og efla alþjóðlegt samstarf íslenskra sviðslistamanna og stofnana. Ákvæði til bráðabirgða kveður á um að ráðherra skipi nefnd sem falið verði að gera tillögur um þjóðaróperu.

Hefði vilja atvinnuleikhús á landsbyggðina

Bæjarins besta innti Elfar Loga Hannesson, leikara og forsprakk Kómedíuleikhússins á Vestfjörðum með meiru eftir áliti hans á lögunum.  Hann sagði gott að loksins væri búið að endurskoða lögin,  hefði þó gjarnan viljað að stigið hefði verið landsbyggðaskref og koma upp atvinnuleikhúsi í hverju landsfjórðungi með samningi einsog er í gangi með Leikfélag Akureyrar.

Elfar Logi bætti því við að kynningarmiðstöð svisliðsta væri vel til komið og væri velkomin á landsbyggðina. „Og miklu líklegra að hún fengi meiri kynningu og umtal þar og um leið tilgang frekar en í húllumhæinu í borginni. Svo var það nú líka einhverntímann stefnan hjá ríkisbatteríinu að hlúa að landsbyggðinni með því m.a. að fjölga þar störfum hér er upplagt tækifæri.“

 

DEILA