Lögreglan á Vestfjörðum hafði í nógu að snúast um helgina

Lögreglan á Vestfjörðum hafði í nógu að snúast eins og fram kom á facebook síðu hennar en þar segir meðal annars þetta:

Hálka gerði ökumönnum og vegfarendum erfitt fyrir í umdæminu um helgina. Ökumaður sem ók Vestfjarðarveg í átt að göngunum undir Breiðadals og Botnsheiði, á laugardag missti stjórn á bifreiðinni og hafnaði utan vegar. Mikil hálka var á vettvangi. Bifreiðin virtist óskemmd en ökumaður kenndi eymsla á höfði og hálsi. Var honum ekið á heilbrigðisstofnunina til aðhlynningar.

Í gær missti annar ökumaður stjórn á bifreið sinni á Ísafirði með þeim afleiðingum að hún hafnaði á húsi og annarri kyrrstæðri bifreið. Engin slys urðu á fólki og engar sjáanlegar skemmdir voru á húsinu en bifreiðin skemmdist.

Einnig féll kona í hálkunni í Hnífsdal á laugardag og hlaut áverka á baki og fæti. Var hún flutt af vettvangi með sjúkrabifreið á heilbrigðisstofnunina.

Á þriðjudag var ökumaður stöðvaður fyrir of hraðan akstur á Ísafirði. Grunur vaknaði um að hann væri undir áhrifum fíkniefna. För hans var stöðvuð og hlýtur málið hefðbundna meðferð. Annar ökumaður var handtekinn vegna ölvunaraksturs á föstudag. Sá var að aka um götur á Tálknafirði seint að kveldi. Þá var þriðji ökumaðurinn stöðvaður vegna of hraðs aksturs en hann ók á 52 km hraða þar sem leyfilegur hraði er 30 km á klukkustund. Báðir þessir ökumenn voru að aka um götur á Ísafirði.

Þá var brotist inn í sumarbústað í Reykhólasveit á föstudag. Rúða í útidyrahurð var brotin og skemmdir unnar á á innréttingu og gólfi. Búið var að róta í eigum sumarbústaðaeigendanna en engu virtist hafa verið stolið. Grjót fannst á gólfinu og líklegt að það hafi verið notað til að brjóta rúðuna í útidyrahurðinni.

DEILA