Landsréttur dæmir Ísafjarðarbæ til greiðslu bóta

Ísafjarðarbær sagði upp starfsmanni sem starfaði í hlutastarfi við búsetuþjónustu hjá sveitarfélaginu.
Starfsmaðurinn var boðaður til fundar með yfirmönnum stofnunar bæjarins 6. desember 2016. Á þeim fundi var starfsmanninum afhent bréf dagsett sama dag þar sem tilkynnt var að til skoðunar væri hvort tilefni væri til að víkja honum fyrirvaralaust frá störfum vegna grófra brota í starfi, sbr. 4. mgr. greinar 11.1.6.1 í kjarasamningi Verkalýðsfélags Vestfirðinga við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem gilti um ráðningarsamband aðila.
Starfsmanninum var í bréfi þessu meðal annars gefið að sök að hafa beitt skjólstæðing sinn líkamlegu ofbeldi. Tekið var fram að umræddur einstaklingur hefði greint öðrum starfsmönnum búsetu frá þessu laugardaginn 3. desember 2016 og aftur 4. desember sama ár.

Var starfsmanninum gefinn kostur á því að tjá sig um málið á sérstökum fundi sem haldinn yrði 9. desember sama ár með tilgreindum yfirmönnum hjá bæjarfélaginu. Á fundinum 9. desember þvertók starfsmaðurinn fyrir að hafa beitt skjólstæðing sinn líkamlegu ofbeldi. Með bréfi bæjarins 22. desember 2016 varstarfsmanninum vikið frá störfum.

Óskaði bærinn síðan eftir lögreglurannsókn, en með bréfi lögreglunnar á Vestfjörðum 16. febrúar 2017 var stefnda tilkynnt að rannsókn málsins væri lokið og það sem fram hefði komið við rannsókn þess teldist ekki líklegt til sakfellis. Væri málið fellt niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Starfsmaðurinn taldi að Ísafjarðarbær hafi með ólögmætum hætti sagt upp ráðningarsamningi þar sem engar forsendur hafi verið að lögum til uppsagnar.
Þá hafi skilyrði kjarasamnings til fyrirvaralausrar uppsagnar ekki verið uppfyllt. Við þá málsmeðferð hafi heldur ekki verið gætt að meginreglum stjórnsýsluréttar.

Niðurstaða Landsréttar var að Ísafjarðarbæ var gert að greiða starfsmanninum 4,5 milljónir en Héraðsdómur hafði áður talið að bætur ættu að vera 500.000,-

DEILA