Landsbyggðin velur hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld

Fimmtíu og fjögur prósent svarenda á landsbyggðinni segjast munu borða hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld samkvæmt könnun MMR sem birt var í gær. Er það mun hærra hlutfall en á höfuðborgarsvæðinu þar sem 42% svarenda völdu hamborgarhrygginn.

Hamborgarhryggur er langvinsælastur meðal landsmanna með 46% á landsvísu. Næst kemur lambakjöt en 9% svarenda velja það. Þar er einnig verulegur munur milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðinsins. Á landsbyggðinni velja 12% lambakjöt en 8% á höfuðborgarsvæðinu.

Samanlagt eru þessir tveir réttir valdir af 66% svarenda á landsbyggðinni en aðeins 50% á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er töluverður munur eftir búsetu. Hins vegar mælist ekki munur á vinsældum hamborgarhryggsins eftir aldri eða kyni. Búseta er því eina breytan sem gefur mismunandi svör.

Rjúpur (9%) og kalkúnn (8%) fylgdu sem áður eftir í næstu þremur sætunum. Neysla nautakjöts hefur aukist yfir síðasta áratuginn og hyggjast nú 6% landsmanna gæða sér á nauti á aðfangadag, fjórum prósentustigum meira en árið 2010. Þá voru 4% sem sögðust ætla að að gæða sér á grænmetisfæði á aðfangadag og 17% sögðu annað en ofantalið verða á sínum matardisk á aðfangadag.

Spurt var: Hvað er líklegast að þú munir borða sem aðalrétt á aðfangadagskvöld?
Svarmöguleikar voru: Fiskur/sjávarfang, gæs, grænmetisfæði, hangikjöt, hamborgarhryggur, hreindýrakjöt, kalkúnn, kjúklingur,
lambakjöt (annað en hangikjöt)*, nautakjöt, rjúpur, svínakjöt (annað en hamborgarhryggur)**, önd, annað kjöt, annað og veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 96,5% afstöðu til spurningarinnar.

DEILA