Kallað eftir áhættumati Hafró

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm kallaði eftir því á Alþingi í gær að Hafrannsóknarstofnun birti nýtt áhættumat fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Samkvæmt nýsettum lögum um fiskeldi ber stofnuninni nú í haust að vinna nýtt áhættumat þar sem tekið verður tillit til mótvægisaðgerða sem gripið hefur verið til undanfarin misseri.

Í ræðu sinni sagði Halla Signý meðal annars:

„Á föstudaginn birti Byggðastofnun skýrslu um atvinnutekjur áranna 2008 – 2018 eftir landshlutum. Í henni kemur fram að launagreiðslur fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum losuðu 1 milljarð króna á síðasta ári og um þriðjungur allra atvinnutekna af fiskeldi féll til á Vestfjörðum. Umfang fiskeldisins á landinu er lang mest í þeim fjórðungi.

Vöxturinn síðustu ár hefur fyrst og fremst átt sér stað á Vestfjörðum í sjókvíalaxeldi og fyrirsjáanlegt að á næstu árum mun áfram verða mikill uppgangur í laxeldinu á Vestfjörðum. Gera má ráð fyrir að fiskeldið gæti orðið stærsti hluti af efnahagsumsvifum  á Vestfjörðum innan fárra ára.

Í vor voru samþykkt lög um fiskeldi hér á Alþingi. Ein veigamesta breytingin með frumvarpinu er lögfesting á því að Hafrannsóknastofnun meti mögulegan fjölda eldislaxa í ám og gefi út ráðgjöf, byggt á því mati sem kallað er áhættumat.

Fyrir tveimur árum hélt Hafró opinn fund fyrir vestan þar sem nýju áhættumati fyrir Ísafjarðardjúp var lofað og það áður en að sól væri hæst á lofti. Síðan þá hefur jörðin farið einn og hálfan hring í kringum sólina.“

Halla Signý sagðist í samtali við Bæjarins besta eiga von á svörum fljótlega.

DEILA